Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi Reykjavík gefur lítið fyrir ummæli Arnars Grétarssonar, þjálfara Valsmanna sem ýjaði að því á dögunum að umboðsmenn leikmanna væru að stýra þeim í Breiðablik og Víking.
Enn fremur segir Kári, í hlaðvarpsþætti Víkinga, að Valsmenn séu að borga fremur háa upphæð fyrir óreynda vöru á borð við Lúkas Loga Heimisson sem gekk til liðs við Val frá Fjölni á dögunum.
Miklar umræður með stöðuna á íslenska leikmannamarkaðnum sköpuðust í nýjasta þætti Víkings Podcastsins sem var í umsjón Tómasar Þórs Þórðarsonar en gestir þáttarins voru þeir Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingum og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs félagsins.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, ýjaði að því í hlaðvarpi Valsmanna á dögunum, Vængjum þöndum, að umboðsmenn leikmanna væru að ýta þeim í ákveðin félög, nánar tiltekið Víking Reykjavík og Breiðablik.
„Við erum búnir að vera djöflast á fullu þó það sjáist ekki mikið,“ sagði Arnar Grétars um vinnu Valsmanna á markaðnum og bætti við. „Það er stanslaust verið að, ég veit ekki hvort einhverjir verði fúlir út í mig. Það eru ekki margir umboðsmenn á Íslandi, við getum sagt að Víkingur og Breiðablik eru með betri tengingar í þessa aðila. Það er bara eins og staðan er, það líður að því að þessi tvö lið eru vel mönnuð.
Arnar ýjar að því að umboðsmenn ýti ungum leikmönnum ítrekað í sömmu áttina
Tómas Þór spurði Kára Árnason, yfirmann knattspyrnumála hjá Víkingum, að því hvort ósanngjarnt væri að sægja á móti við Valsmenn að „leikmönnum sé ýtt þangað sem er vitað að kakan verður bökuð og sett aftur í bakaríið?“
„Ég held að þetta sé ekki alveg rétt heldur,“ svaraði Kári um ummæli Arnars Grétarssonar. „Það vill náttúrulega bara þannig til að Total Football eru með 90% af þeim gæjum sem spila á Íslandi og eru á ákveðnum aldri. Það er því óumflýjanlegt að eiga í samskiptum við þá.
Ég held að Valsmenn séu nú með fleiri leikmenn á þeirra bókum heldur en við. Það sem við gefum okkur út fyrir að gera að kenna þeim, alveg sama hvort það sé varnarmaður eða sóknarmaður, og það eru gerðar miklar kröfur hérna.“
Í þættinum leitaði Tómas Þór leitaði svara hjá Kára um það hvað lykilmenn knattspyrnudeildar Víkinga hefðu rætt um á fundum sínum eftir síðasta tímabil, með næsta tímabil fyrir augum. Hvort það væri búið að leysa/bæta það sem félagið vildi gera, til að mynda í leikmannamálum.
„Við setjumst niður á hverjum tímabili, svo snýst þetta líka bara um fjárhagslega burði. Það væri náttúrulega þægilegt að vera í sömu stöðu og Manchester City, geta bara valið sér leikmann til að taka en þetta er rosalega erfitt. Við erum í þeirri stöðu að vera með rosalega sterkan hóp, þetta eru góðir fótboltamenn sem við erum með en auðvitað má alltaf bæta við sig en hverjir eru það?
Það eru einn og einn leikmaður í flestum liðum sem myndu bæta okkar hóp, en það er ekki fræðilegur möguleiki að viðkomandi lið sé að fara sleppa þeim leikmanni.“
Fyrir utan það sé það ekki möguleiki fyrir Víkinga að kaupa umrædda leikmenn af þannig liðum.
„Maður verður að vera sniðugur í þessu og bíða eftir réttu mómentunum,“ bætti Kári við. „Þetta er þungur markaður að vinna á. Það er verið að borga dálítið mikið fyrir óreynda vöru.“
Í því ljósi nefndi Kári kaup Valsmanna á Lúkasi Loga Heimissyni frá Lengjudeildarliði Fjölnis.
„Það er verið að borga mjög háa upphæð fyrir þennan strák sem hefur bara spilað í 1. deild. Við vitum í rauninni ekkert hvað kemur úr honum á næstu 1-2 árum. Það verður gaman að fylgjast með því hvort þeir (Valsmenn) séu með puttann á púlsinum með það að hann gangi bara beint inn í byrjunarliðið.
Þannig leikmenn er rosalega erfitt að finna. Að ganga inn í byrjunarliðið í Víking, það er ekkert hver sem er sem getur það. Það er alveg sama hversu vel þú scout-ar 1. deildina, maður er alltaf með það í huganum hvernig leikmaðurinn verður í úrvalsdeildinni.“
Hlusta má á nýjasta þátt Víkings Podcastsins hér fyrir neðan: