Hollenski blaðamaðurinn Rik Elfrink segir það algjört kjaftæði að Ruud van Nistelrooy, þjálfari PSV í Hollandi og fyrrum leikmaður Manchester United, hafi sagt að drauma félagsskipti Cody Gakpo, fyrrum leikmanns PSV og núverandi leikmanns Liverpool, hafi verið að gerast leikmaður Manchester United.
Fyrr í dag birtist færsla frá reikningnum UF á Twitter þar sem miðillinn sagðist vitna í Ruud van Nistelrooy, þjálfara PSV í Hollandi sem var sagður segja að Cody Gakpo hafi hlustað á Virgil van Dijk, miðvörð Liverpool frekar en ráð sín til leikmannsins um að ganga til liðs við Manchester United.
Gakpo gekk í raðir Liverpool frá PSV í janúar síðastliðnum.
Rik Elfrink, blaðamaður sem sérhæfir sig í málefnum PSV íHollandi, hefur nú birt færslu á Twitter þar sem hann deilir færslu UF og segir hana algjört þvaður.
„100% falsfrétt. Van Nistelrooy ræddi aldrei um þessa stöðu opinberlega,“ skrifar Rik í færslu á Twitter.
Gakpo er 23 ára landsliðsmaður Hollands. Hann er uppalinn hjá PSV í heimalandinu og hafði brotið sér leið inn í aðallið félagsins þegar að kallið kom frá Liverpool og Jurgen Klopp í janúar í upphafi þessa árs.
Liverpool og Manchester United eru erkifjendur í enska boltanum og því hefði það geta komið sér ansi illa fyrir leikmanninn ef sögur, um að hann hefði fremur vilja ganga til liðs við Manchester United heldur en Liverpool, hefðu fengið byr undir báða vængi.
Gakpo kemur inn á krefjandi tímum hjá Liverpool, sem hefur hvorki gengið né rekið hjá á tímabilinu. Nú þegar hefur Gakpo spilað 6 leiki fyrir Liverpool.
🇬🇧 100% fake quote ❌️. Van Nistelrooy never spoke about the topic in public. https://t.co/0nEzK2MaK7
— Rik Elfrink (@RikElfrink) February 8, 2023