Hugo Lloris markvörður Tottenham verður frá næstu sex til átta vikurnar vegna meiðsla sem hann varð fyrir um helgina.
Lloris meiddist á hné undir lok leiksins gegn Manchester City á sunnudag þar sem Spurs vann góðan 1-0 sigur.
Liðbönd í hné Lloris eru sködduð en ekki er búist við að hann þurfi að fara í aðgerð.
Lloris hefur varið Tottenham undanfarin ár og verið í stóru hlutverki, hans verður sárt saknað nú þegar Tottenham reynir að sækja Meistaradeildarsæti.
Fraser Forster fær nú tækifæri til að sanna ágæti sitt en mikilvægir leikir í deild og Meistaradeild eru á næstu vikum.