Svo virðist sem fréttir af Christian Atsu í gær hafi ekki verið réttar, Atsu sem leikur með Hatayspor í Tyrklandi var einn þeirra sem týndist eftir stóran jarðskjálfta þar í landi á mánudag.
Um sólarhring eftir jarðskjálftann voru sagðar fréttir af því í gær að Atsu væri á lífi og hefði fundist undir rústum byggingarinnar þar sem hann bjó.
Læknir Hatayspor hefur hins vegar sagt frá því að það sé líklega ekki rétt.
„Þegar við heyrðum fréttirnar að búið væri að fara með Atsu á Dorytol spítalann, þá fórum við þangað að leita en hann er ekki þar,“ sagði Gurbey Kahveci læknir félagsins.
„Þessa stundina verðum við að lifa með því að Savut Taner (Yfirmaður knattspyrnumála) og Atsu eru ekki fundir. Því miður.“
Jarðskjálfti upp á 7,8 reið yfir Tyrkland og Sýrland á mánudag. Hann átti upptök sín nærri milljónaborginni Gaziantep í samnefndu héraði að sögn bandarísku jarðfræðistofnunarinnar USGS.
Skjálftinn átti upptök sín á 17,9 km dýpi. Skömmu eftir að hann reið yfir fylgdi eftirskjálfti upp á 6,7. Búist er við að allt að tíu þúsund hafi látist í skjálftanum.
Atsu er 31 árs gamall en hann kom árið 2013 til Chelsea en spilaði aldrei í deild fyrir félagið, hann var lánaður til Vitesse, Everton, Bournemouth, Malaga og Newcastle áður en hann fór frá félaginu.