fbpx
Sunnudagur 01.september 2024
Fréttir

Stóra kókaínmálið: Harmsaga Páls timbursala – „Ég var í andlegu sjokki, hent inn í einangrun“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 6. mars 2023 14:15

Páll var niðurlútur í réttarsal. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vitnaleiðslum er nú lokið í stóra kókaínmálinu. Fordæmalítið fréttabann hefur verið á málinu af hálfu héraðsdómara  þar til vitnaleiðslum var lokið. Einn sakborninganna í málinu, Páll Jónsson, eða Páll timbursali, bar fyrstur vitni í aðalmeðferð málsins, þann 18. janúar síðastliðinn. DV sat fyrsta dag aðalmeðferðar en þá lýsti Páll miklum hörmungum í lífi sínum sem hefðu átt þátt sinn í því að hann lét undan þrýstingi um að aðstoða við flutning á sex kílóum að af kókaíni til landsins, frá Brasilíu, með viðkomu í Rotterdam í Hollandi.

Páll neitar því að hafa haft vitneskju um svo mikið magn sem raun bar vitni, en heildarmagn haldlagðra efna var tæplega 100 kíló. Efnin voru falin í trjádrumbum sem Páll lét flytja til landsins í gegnum fyrirtæki sitt, Hús og Harðviður, sem staðsett er í Hafnarfirði. Aðrir sakborningar í málinu eru Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson. Talið er fullvíst að lögregla hafi ekki haft hendur í hári höfuðpaura í málinu enda eru sakborningarnir allir ákærðir fyrir peningaþvætti þar sem þeir tóku við háum fjárhæðum frá óþekktum aðilum sem þóknun fyrir verkið og til fjármögnunar á kostnaði.

Páll sker sig frá hinum sakborningunum þar sem hann er miklu eldri, 67 ára gamall. Hann er fjölskyldumaður og hefur engan sakaferil að baki. Hann er ekki við góða heilsu og lýsti því í vitnaleiðslum að sex mánaða einangrunarvist hefði leikið hann grátt. Er hann kvaðst eingöngu hafa haft vitneskju um magn upp á sex kíló af kókaíni var hann minntur á að hann hefði játað í skýrslutökum hjá lögreglu vitneskju um miklu meira magn. Sagði hann þá að þar hefði rannsóknarlögreglumaður beitt sig lúabrögðum. Sá maður hefði yfirheyrt sig síðla morguninn eftir að hann var handtekinn. Orðrétt sagði Páll meðal annars þetta um framgöngu lögreglunnar á þessum tímapunkti:

„Svo ellefu um morguninn þarna fimmta þá kemur maður inn í klefa til mín voða léttur á lund. Talar eins og hann hafi þekkt mig til fjölda ára. Hann segist heita Kalli og vera stjórnandi þessarar rannsóknar. Biður mig að koma niður fyrir myndatöku og fingraför. Þar eru tveir menn. Kalli biður mig að koma afsíðis og tala við sig. Þá byrjar hann á þessari sögu minni, að hann viti allt um mig og mína. Viti það að ég hafi orðið fyrir miklum áföllum, viti það að ég sé alkóhólisti, viti minn þátt í málinu, samvinna væri mér til hagsbóta þá. Mér er þetta svo minnistætt. Þú veist hvað þetta er mikið segir hann, ég segi nei. Fimmtíu kíló plús segir hann, hvað áttiru að fá fyrir þetta? Ég segi að það hafi aldrei verið talað um það. Kalli segir þrjátíu milljónir, ætli það ekki, þarna var ég í andlegu þroti. Svo er mér hent aftur í klefann. Þetta heitir að sparka í liggjandi mann, það er mín túlkun. Síðan hef ég aldrei séð þennan mann. Ég var í andlegu sjokki, hent inn í einangrun. – Fimmtíu kíló og síðan voru þetta orðin hundrað. Ég vissi ekki hvað var að gerast.“

Páll gagnrýndi harðlega að hann hafi verið látinn dúsa í gæsluvarðhaldi í sex mánuði, þar af mestan hlutann í einangrun, vegna haldlagðra gerviefna, en lögreglumenn í Rotterdam skiptu á efnunum þar fyrir gerviefni. Kókaínið kom því í raun aldrei til Íslands heldur gerivefni sem því hafði verið skipt út fyrir:

„Mér finnst þetta orðið ansi erfitt fyrir mig. Með þessar einangranir sem ég hef verið í hálft ár. Á grundvelli almannahagsmuna, þessi fíkniefni sem voru í þessum gámi, þau eru ekki til, ég veit ekki hvaða ógn ætti að stafa af mér.“

Dauðsföll – Stjúpsonur fór í líffæraskipti

Páll sagðist lítið hafa fengið að vita um fíkniefnin sem hann var látinn taka þátt í að smygla. Áður hefði hann átt heiðarleg viðskipti við einn sakborninga, Birgi Halldórsson, vegna innflutnings á efni í hús. Ekkert hafi verið saknæmt við þann innflutning. Annan sakborning, Jóhannes Pál Durr, þekkti  hann eingöngu í gengum samskipti í tengslum við þetta mál. Sakborninginn Daða Björnsson þekkti hann hins vegar ekki neitt. Birgir hefði kynnt hann fyrir Jóhannesi. Jóhannes hefði ekki upplýst hann um áform um innflutning á kókaíni fyrr en áætlanir voru langt komnar.

Páll segir að á þeim tímapunkti þegar hann lét til leiðast og samþykkti smygl á sex kílóum af kókaíni með trjádrumbum sem hann flutti inn, þá hafi hann verið í andlegu þroti vegna áfalla í fjölskyldu. Sonur hans lést, tengdamóðir hans lést og sonur eiginkonu hans veiktist alvarlega og þurfti að undirgangast líffæraskipti:

„Það er þannig að einn sonur minn hann deyr 2. mars árið 2021. Tengdamóðir mín deyr sama ár í maí. Svo veikist einn sonur konu minnar mjög hastarlega og var alveg frá og fór í líffæraskipti. Allt þetta tekur krafta. Þetta var bara svona, ég var búinn að gefast upp.“ 

Hann segist ennfremur ekki hafa fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í fangelsinu á Hólmsheiði þar sem hann mátti dúsa í sex mánuði, lengst af í einangrun:

„Ég greindist með blóðsjúkdóm 2014. Ég komst yfir það en hann er augljóslega að taka sig upp aftur. Ég fæ marbletti, síðast þegar ég var handjárnaður þá var ég allur blár á hendinni eftir handjárnin. Það er ekki tekið tillit til neins.“ Segir hann að honum hafi verið bent á heilsugæsluna á Hólmsheiði en hún sé mjög takmörkuð.

Páll gekkst við því að hafa fengið allan kostnað við innflutninginn greiddan í reiðufé. Hann viðurkennir að það hafi hringt viðvörunarbjöllum í huga hans. Hann sagði um þetta:

„Það vakti bjöllur en þetta voru allt peningar sem komu beint úr banka, sléttir og fínir í bunkum. Ég lagði þetta beint inn á fyrirtækið og breytti út samkvæmt fylgiskjölum. Allir þeir peningar sem ég innti af hendi runnu eingöngu til efniskaupa, það er að segja timbur og tryggingar. Þó kaupverðið, svokallað fokverð sé kannski 30 þúsund dollarar frá framleiðanda og svo koma öll gjöld ofan á það. Það margfaldast.“

Páll sagði ennfremur: „Ég vil koma því á framfæri, það sem ég er ákærður fyrir, þá er ég ákærður fyrir sextán milljónir, eitthvað slíkt. Til fíkniefnakaupa og til einkanota. Þetta er bara alrangt. Í fyrsta lagi hef ég engin sambönd við einhverja undirheima, hvorki hér heima né í Brasilíu.“

Sem fyrr segir er langri og strangri aðalmeðferð í málinu lokið. Búast má við því að dómur falli eftir fjórar vikur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hættuleg umferðarljós í Langholtshverfi vekja reiði íbúa – „Það munaði svo litlu að keyrt væri yfir hana“

Hættuleg umferðarljós í Langholtshverfi vekja reiði íbúa – „Það munaði svo litlu að keyrt væri yfir hana“
Fréttir
Í gær

Banaslys í Garðabæ

Banaslys í Garðabæ
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Meintur raðnauðgari ákærður fyrir brot gegn fjórum konum – Nýtti sér að þær gátu ekki spornað við ofbeldinu og tók háttsemina upp

Meintur raðnauðgari ákærður fyrir brot gegn fjórum konum – Nýtti sér að þær gátu ekki spornað við ofbeldinu og tók háttsemina upp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirlýsing frá Ice Pic Journeys – Harma mjög banaslysið

Yfirlýsing frá Ice Pic Journeys – Harma mjög banaslysið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

CIA segir að markmiðið hafi verið að drepa þúsundir manna

CIA segir að markmiðið hafi verið að drepa þúsundir manna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ung kona lést þegar eftirlíkingu af víkingaskipi hvolfdi í Noregi – Festist undir bátnum

Ung kona lést þegar eftirlíkingu af víkingaskipi hvolfdi í Noregi – Festist undir bátnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helgi Magnús ákveðinn: „Ég mun fara alla leið með þetta og gef ekkert eftir“

Helgi Magnús ákveðinn: „Ég mun fara alla leið með þetta og gef ekkert eftir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björguðu manni úr sjálfheldu – Kaldur og skelkaður þegar hann kom niður

Björguðu manni úr sjálfheldu – Kaldur og skelkaður þegar hann kom niður