Kona á Suðurnesjum hefur verið sýknuð af ákæru um kynferðisbrot sem fólst í því að hún hafi dreift til þriðja aðila mynd af getnaðarlimi fyrrverandi eiginmanns síns og tveimur nektarmyndum af ástkonu hans. Þetta hafi hún gert án samþykkis eiginmannsins og umræddrar konu. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 7. febrúar.
DV fjallaði um þetta mál síðastliðið haust: Kona á Suðurnesjum ákærð fyrir kynferðisbrot gegn fyrrverandi eiginmanni og annarri konu
Þessi háttsemi konunnar var kærð til lögreglu í ágústmánuði árið 2020. Konan gekkst við því að hafa dreift þessum myndum í tölvupósti en um var að ræða skjáskot sem hún hafði fundið á messenger og höfðu gengið á milli eigimannsins og ástkonu hans. Í texta dómsins segir svo um þetta, en þar er eiginmaður merktur bókstafnum A, ástkona hans bókstafnum B og tvö vitni, þ.e. tvær konur sem fengu umræddan tölvupóst, merktar C og D:
„Af rannsóknargögnum er ljóst að ákærða gekkst frá upphafi við háttseminni sem slíkri, en gaf sínar skýringar á framferðinu. Þá staðfestu C og D að þeim hefði borist umræddur tölvupóstur ásamt tilgreindum nektarmyndum. Er tölvupósturinn, sem sendur var til A, meðal málsgagna. Pósturinn ber yfirskriftina „Þú ert viðbjóður“ og fylgir honum textinn: „Vona að þín hægri hönd og helsti ráðgjafi D geti hjálpað þér. Þú ert djöfull í mannsmynd og berð hvorki virðingu fyrir mér né strákunum þínu (sic). Að fá þetta í hendurnar er hryllingur og það er meira til sem kemur út á næstunni og fólk fær að sjá hvaða mann þú hefur að geyma.“ Með tölvupóstinum sendi ákærða viðhengi með níu skjáskotum af útprentuðum Messenger skilaboðum milli A og B og fylgdu þeim skilaboðum ein mynd af getnaðarlim A og tvær myndir af brjóstum B.
Ákærða gaf skýrslu fyrir dómi, sem og brotaþolarnir A og B og vitnin C og D. Öll báru þau með sama hætti og hjá lögreglu og við dómtöku máls lá ljóst fyrir játning
ákærðu á því að hafa viðhaft það framferði sem í ákæru greinir.“
Ákæruvaldið byggði mál sitt á því að komin væri fram sönnun um að konan hefði með þessu athæfi framið verknað sem fellur undir 209. greina almennra hegningarlaga, en hún er svohljóðandi:
„Hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þ.m.t. falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“
Konan byggði vörn sína á því að eftir að henni varð ljóst hve alvarlega og lengi maðurinn hefði farið á bak við sig hefði hún misst stjórn á sér. Hún hafi komist í mikla geðshræringu þegar hún las óviðurkvæmileg skrif mannsins um syni þeirra til ástkonunnar. Hafi ummælin um synina verið ástæða tölvupóstsendinganna. Þá telji hún ósannað að hún hafi sært blygðunarsemi brotaþolanna tveggja með tölvupóstunum, sem aðeins bárust manninum og tveimur konum.
Í niðurstöðu dómsins er meint brot tekið saman í þennan texta:
Ákærða hefur játað fyrir dómi að hafa í ágúst 2020 aflað sér og dreift nektarmynd af þáverandi eiginmanni sínum A, sem sýndi getnaðarlim hans og tveimur
nektarmyndum af brotaþola B, sem sýndu brjóst hennar, án samþykkis þeirra og sent þær myndir með tölvupósti til C og D. Er sá framburður ákærðu í samræmi við frásögn hennar hjá lögreglu og samrýmist öðrum málsgögnum. Er ákærða þannig sönn að því að hafa viðhaft þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Er reyndar ekki um það deilt í málinu.
Dómari telur háttsemi konunnar samt ekki brjóta gegn áðurnefndri lagagrein þar sem hún er ekki af kynferðislegum toga. Telur dómari að lagagreinin geri ráð fyrir athæfi sem sprottið er af lostugum huga. Dómari bendir á að í lagafrumvörpum eða öðrum lögskýringargögnum sé hvergi að finna hvert sé inntak hugtaksins „lostugt athæfi“ en skýring á hugtakinu hafi verið mótuð af dómstólum og „þeir lagt þann skilning í hugtakið að með því sé átt við athöfn af kynferðislegum toga sem gengur skemmra en samræði og önnur kynferðismök“.
Tekið er tillit til þess af hvaða hvötum verknaðurinn var framinn. Aflvaki hegðunarinnar hafi verið umhyggja fyrir sonum þeirra og hún hafi viljað sýna hvaða mann maður hennar hafði að geyma. Aflvaki hegðunarinnar hafi ekki verið af kynferðislegum toga. Því hafi hún ekki sært blygðunarsemi mannsins og ástkonu hans.
Konan var sýknuð af ákæru um kynferðisbrot og bótakröfum parsins var vísað frá dómi. Maðurinn hafði krafist tveggja milljóna króna í miskabætur en ástkona hans tæprar einnar milljónar króna. Allur sakarkostnaður greiðist hins vegar úr ríkissjóði.