Rayo Vallecano er að gera virkilega góða hluti í La Liga á Spáni á þessari leiktíð.
Liðið situr sem stendur í fimmta sæti, þremur stigum á eftir Meistaradeildarsæti. Liðið er því í hörkubaráttu um að fá að vera með í deild þeirra bestu, eða þá Evrópudeildinni, á næstu leiktíð.
Í gær vann Rayo 2-0 sigur á Almeria. Aðdáendur liðsins eru farnir að láta sig dreyma um að spila í Evrópu og eftir leik sungu þeir: „Rayo-Liverpool á næsta ári.“
Reikningurinn The Spanish Football Podcast benti hins vegar á það að alls ekki er víst að Rayo fái að mæta Liverpool á næstu leiktíð, þó svo að liðið komist í Evrópukeppni.
„Stuðningsmenn Rayo syngja „Rayo-Liverpool á næsta ári.“ Já, varðandi það,“ stóð í kaldhæðinni færslu.
Þarna er augljóslega átt við það að Liverpool er í afar slæmri stöðu í ensku úrvalsdeildinni og þátttaka þeirra í Evrópukeppni á næstu leiktíð í hættu.
Liðið situr í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
„Next year, Rayo-Liverpool“ the Rayo fans sing. Yeah, about that… pic.twitter.com/gb4Q6wcCyK
— The Spanish Football Podcast (@tsf_podcast) February 6, 2023