Morgunblaðið skýrir frá þessu og hefur eftir Snorra Jakobssyni, hagfræðingi hjá Jakobsson Capital, að útlit sé fyrir að raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu muni lækka á næstu misserum vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Einnig sé uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir ekki eins mikil og áður var talið.
Í skýrslu Jakobsson Capital, Timburmenn á fasteignamarkaði, er fjallað um húsnæðismarkaðinn og er spáð 12% raunverðslækkun fram til ársloka 2024. Verðið verði samt sem áður tæplega 19% hærra í árslok 2024 en um mitt ár 2019.
Snorri sagði í samtali við Morgunblaðið að hann reikni með að fasteignaverð muni lækka að raunverði á næstu árum og að vextir verði háir sem og verðbólga. Mesta verðlækkunin verður á þessu ári en síðan dregur úr henni á næsta ári sagði hann.