Lucas Leiva, fyrrum miðjumaður enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, er að slá í gegn þessa stundina með færslu sem hann setti inn á samfélagsmiðilinn Twitter í ljósi stærstu frétta dagsins er varðar ákæru ensku úrvalsdeildarinnar á hendur Manchester City og meintum brotum félagsins á reglum um fjármál félaga deildarinnar.
Rannsókn hefur staðið yfir í málinu í fjögur ár en ákærurnar voru birtar í dag og eru þær í 100 liðum. Í yfirlýsingu frá ensku úrvalsdeildinni segir að meint brot hafi átt sér stað frá 2009 til ársins 2018.
„Félagið er grunað um að hafa ekki skilað af sér réttum upplýsingum þegar kemur að tekjum, tengdum aðilum og kostnaði,“ segir í yfirlýsingu deildarinnar.
Meint brot Manchester City snúa þá meðal annars að tímabilinu 2013-2014. Tímabilið sem hefur oft verið kennt við atvikið þar sem Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool skrikar fótur í toppbaráttuleik gegn Chelsea, leik þar sem úrslitin settu stórt strik í reikninginn fyrir möguleika Liverpool á Englandsmeistaratitlinum.
Liverpool tapaði stigum í umræddum leik og Manchester City nýtti sér það, tyllti sér á toppinn og varð að lokum Englandsmeistari. Tveimur stigum munaði á City og Liverpool sem endaði í 2. sæti.
Fjölmargir hafa kallað eftir því að titlar Manchester City á þessum árum verði teknir af þeim verði félagið dæmt og spyr Lucas Leiva sig því að því hvort hann sé Englandsmeistari og hnýtir um leið í Manchester City.
„Er ég Englandsmeistari?“ segir hann í stuttri en hnitmiðaðri færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í kvöld.
Am I a Premier League champion ?
— Lucas Leiva (@LucasLeiva87) February 6, 2023