Dino Nocivelli, lögmaður í Bretlandi sem sérhæfir sig meðal annars í málum er snúa að meintum kynferðisofbeldi gegn ólögráða einstaklingum, telur að ekki verði tekið tillit til tímans sem íslenski knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið í farbanni, fari svo að hann verði dæmdur til fangelsisvistar í máli sem nú liggur á borði Saksóknaraembættis bresku krúnunnar.
Frá þessu greinir hann í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins í dag. Þar er tekið fram að Nocivelli geti ekki, sökum laga í Bretlandi tjáð sig með beinum hætti um mál Gylfa Þórs Sigurðssonar sem var þann 16. júlí árið 2021 handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.
Af fyrri dæmum sé þó hægt að reyna átta sig á hvenær niðurstaða, um það hvort ákæra eigi í málinu eða láta það niður falla, fáist frá saksóknaraembættinu.
„Það mætti vonast eftir niðurstöðu um næstu skref fyrir lok mars,“ segir Nocivelli í svari til Fréttablaðsins.
Lögreglan í Greater Manchester hefur lokið rannsókn sinni og er málið nú komið inn á borð saksóknaraembættis bresku krúnunnar sem fer yfir gögn málsins og ákvarðar næstu skref.
Frá því skömmu efir handtöku hefur Gylfi Þór verið laus gegn tryggingu og í farbanni. Dino telur að ekki verði tekið tillit til þess fari svo að ákært verði í málinu og Gylfi fundinn sekur.
„Ég tel svo ekki vera,“ segir Dino í svari til Fréttablaðsins.