Veitingafyrirtækið Taj Mahal var tekið til gjaldþrotaskipta þann 2. nóvember 2022 og lauk skiptum í búinu þann 27. janúar síðastliðinn. Tilkynning um þetta hefur verið birt í Lögbirtingablaðinu og kemur þar fram að eignir sem fundust í búinu voru aðeins upp á tæplega 80 þúsund krónur.
Ekkert fékkst upp í almennar kröfur sem voru rúmlega 11,5 milljónir króna.
Hjónin Usman og Farzana veðjuðu á veitingarekstur í Covid-fárinu en athygli vakti að þau opnuðu nýjan veitingastað í miðborginni undir merkjum Taj Mahal snemma í faraldrinum. Fréttablaðið greindi frá þessu í mars árið 2020. Síðar opnuðu þau stað á Grensásvegi. Einnig hafa þau rekið gistiheimili í Reykjavík og Hveragerði.
Þau Usman og Farzana hafa lagt áherslu á dugnað, góðan mat og sanngjarnt verð og voru bjartsýn á veitingarekstur í Covid, ef marka má áðurnefnt viðtal í Fréttablaðinu. „Lífið snýst um vinnuna og við tökum engin frí,“ sögðu þau. Sú bjartsýni dugði þó því miður ekki til því því Taj Mahal varð gjaldþrota ekki löngu eftir að Covid-fárinu lauk.
Í viðtalinu kom einnig fram að hjónin höfðu komið hingað til lands meðal annars vegna þess að hér væru mannréttindi og tjáningarfrelsi í hávegum höfð í hávegum höfð. „Það hefur alltaf verið draumur minn að fara út í eigin rekstur. Faðir minn var í veitingarekstri og ég lærði ýmislegt af honum,“ sagði Usman við Fréttablaðið.
Á Google segir að Taj Mahal veitingastaðurinn við Tryggvagötu sé lokaður tímabundið. Þar kemur einnig fram að hann hefur heilt yfir fengið góðar umsagnir matargesta.