Þetta sagði Mats Löfving, ríkislögreglustjóri í Svíþjóð, nýlega í viðtali við Sænska ríkisútvarpið. Hann sagði einnig að Svíar séu of „barnalegir“ hvað varðar glæpagengin.
Í nýrri leynilegri lögregluskýrslu, sem dagblaðið Expressen hefur komist yfir, kemur fram að mörg af þessum glæpagengjum hafi nú öðlast svo mikil völd í samfélaginu að félagar í þeim séu búnir að koma sér fyrir í stjórnmálaflokkum, hjá atvinnumiðlunum, í fasteignageiranum, á sjúkrahúsum og í bönkum.
Í skýrslunni kemur fram að vandinn sé mestur í Södertälje, sem er bær nærri Stokkhólmi, en þar eru fjölskylduglæpagengin sögð hafa komið sér fyrir í nær öllum lögum samfélagsins. Einnig segir að á sama tíma og hægt er að tengja hluta af þessum glæpagengjum við sprengjutilræði og skotárásir sinni aðrir félagar í þeim störfum í atvinnulífinu.
„Það er mat lögreglunnar að félagar í Södertälje-genginu telji sig ekki vera glæpamenn, heldur verktaka. Markmið og þarfir glæpagengisins eru mikilvægust en sænsk lög og reglur koma þar á eftir,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Skýrslan var gerð í byrjun árs en hefur verið haldið leynilegri. Expressen segir að í henni komi fram að fjórir aðilar úr Södertälje-genginu hafi setið á þingi á síðustu tveimur áratugum.