Kitts fann tvo kassa falda í vegg í húsi nærri Lake Erie í Cleveland þegar hann var að störfum þar. Í kössunum voru sem svarar til 26 milljóna íslenskra króna í reiðufé.
Flestir búast eflaust við því að það sé ekkert nema blessun ein að finna svona mikið af peningum en í tilfelli Kitts endaði þetta sem algjör martröð.
Eftir því sem segir í umfjöllun New York Times þá voru umslög í kössunum og voru þau merkt sendandanum P. Dunne News Agency. Kitts reif hornið af einu umslagi og sá þá peningaseðla í því. Það reyndust síðan vera peningar í hinum umslögunum. Þetta voru seðlar frá því á þriðja áratugnum.
Hann hafði verið ráðinn af Amanda Reece til að gera endurbætur á húsinu. Hún krafðist þess að fá peninga og bauð Kitts 10% af upphæðinni í fundarlaun. Hann taldi það ekki sanngjarnt og vildi fá 40%.
Þar með hófust vandamálin og að lokum gerði Dunne dánarbúið kröfu um að fá peningana en 21 aðili átti kröfu í dánarbúið.
En þegar málið komst á það stig var megnið af peningunum horfið. Amanda Reece hafði eytt þeim.
Hún eyddi tveimur milljónum í ferðalag með móður sinni til Hawaii og hélt því fram að átta milljónum hefði verið stolið frá henni en hún tilkynnti lögreglunni aldrei um þjófnaðinn. Þegar málið var tekið fyrir dóm sagðist hún hafa geymt peningana í skókassa í fataskápnum sínum. Hún sagðist einnig hafa selt söfnurum hluta af þessum gömlu seðlum.
Hún sakaði Kitts um að hafa stolið peningum frá henni.
Málið var leyst með þeim hætti fyrir dómi að Kitts fékk 13,7% af upphæðinni. Reece féll frá kröfu um að fá þær 3,5 milljónir sem hún átti eftir.
Það sem eftir var af peningunum rann til Dunne dánarbúsins.
Lögmaður dánarbúsins sagðist kalla málið „Græðgismálið“ því ef Reece og Kitts hefðu sest niður leyst úr ágreiningi sínum og skipt peningunum á milli sín hefði dánarbúið aldrei komist á snoðir um þá. „Af því að þau gátu ekki sest niður og skipt þessu á skynsamlegan hátt, töpuðu þau bæði,“ sagði hann.
Kitts segir að hann hafi verið sagður gráðugur og hafi fengið það orðspor á sig og hafi tapað viðskiptum í framhaldinu. Hann hafi því tapað á þessu öllu saman þegar upp var staðið.