Rannsókn lögreglunnar í Greater Manchester á máli íslenska knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar er lokið og er málið nú komið á borð Saksóknaraembættis bresku krúnunnar. Þetta staðfestir embættið í svari til Fréttablaðsins.
Gylfi Þór var handtekinn í júlí árið 2021, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi, stuttu eftir handtöku var hann látinn laus gegn tryggingu, hefur fyrirkomulagið verið slíkt síðan þá og lausn Gylfa gegn tryggingu í nokkur skipti verið endurnýjuð.
Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segist talsmaður Saksóknaraembættis bresku krúnunnar ekki geta svarað því hversu margir hafi verið yfirheyrðir í tengslum við málið.
,,Við fengum í hendurnar gögn frá lögreglunni á Greater Manchester svæðinu þann 31. janúar síðastliðinn í kjölfar rannsóknar hennar á ásökunum um ítrekuð kynferðisbrot. Við erum þessa stundina að leggja mat á gögnin í samræmi við okkar ferli,“ segir í svari talsmanns Saksóknaraembættis bresku krúnunnar við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Enn fremur segir í svari embættisins að ekki sé hægt að segja með vissu hvenær hægt verður að búast við ákvörðun um næstu skref í málinu.