Marcel Sabitzer mun koma við sögu í leik Manchester United og Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Þetta sagði Erik ten Hag á blaðamannafundi í dag.
Sabitzer gekk í raðir United á láni frá Bayern Munchen í lok félagaskiptagluggans. Ten Hag vantaði mann á miðjuna í kjölfar meiðsla Christian Eriksen.
Ten Hag svaraði því játandi þegar hann var spurður út í það hvort Sabitzer myndi koma við sögu á morgun.
„Hann er mjög góður. Hann hefur aðeins farið á eina æfingu en hann er í mjög góðu formi. Hann er að koma frá Bayern og leikmenn frá þýskum félögum eru alltaf í góðu formi, hann olli ekki vonbrigðum þar. Ég tel að hann verði klár í að spila á morgun.“
Ten Hag er mjög spenntur fyrir því að vinna með Sabitzer.
„Hann er mjög klár leikmaður. Við þurfum að leiðbeina honum aðeins en hann veit samt hvað þarf að gera. Hann veit hvert starfið er.“