Þetta segir Stefán Örn Arnarson, hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Blaðið sendi fyrirspurn í kjölfar fréttar um bandarísk hjón sem lýstu meintum svikum af hálfum íslensks ferðaskipuleggjanda.
Í svari Stefáns kemur fram að lögregluna gruni að umtalsverð „svört“ starfsemi eigi sér stað í tengslum við ferðamannaiðnaðinn. Um leyfislausa starfsemi sé að ræða þar sem ekki séu staðin skil á opinberum gjöldum.
Hann sagði að ekki væri erfitt að beita sér í málum er tengjast svikum gegn ferðamönnum. „Ágætis lausn væri að hafa lítið teymi sem hefði meðal annars það verkefni að kanna leyfi og réttindi aðila í ferðaþjónustu,“ segir hann og bendir á hægt væri að gera þetta á svipaðan hátt og gert er með skemmtistaði og dyraverði.
Hann sagði einnig vera sitt mat að leyfislaus starfsemi aukist samhliða aukningu ferðamanna hingað til lands. Kippir hafi sést annars staðar, til dæmis hvað varðar framboð vændis sem hafi aukist til muna eftir að ferðamannaiðnaðurinn tók við sér á sínum tíma.