Landamærahéruðin eru innan skotfæris úkraínska hersins og þótt Úkraínumenn hafi ekki gert margar árásir á þessi héruð þá finna íbúarnir fyrir stríðinu og flytja hefur þurft marga á brott og finna þeim nýtt heimili.
Á fundi Marta Khusnulinn, varaforsætisráðherra Rússland, og Vladímír Pútíns, forseta, á miðvikudaginn ræddu þeir stöðuna í landamærahéruðunum. Sagði Khusnullin að í Belgorod-, Kursk- og Brjansk-héruðunum sé staðan þannig að það þurfi að finna mörgum íbúum nýtt heimili vegna þess að bein ógn steðji að lífi þeirra. TASS skýrir frá þessu.
Fram kemur að mörg þúsund íbúar í héruðunum hafi þurft að yfirgefa heimili sín en svæðin, sem þeir koma frá, eru samtals 108.000 ferkílómetrar að stærð.
Khusnullin sagði Pútín að kostnaðurinn við þetta sé sem svarar til um 18 milljarða íslenskra króna og að búið sé að útbúa húsnæði sem fólkið getur farið í og koma upp viðeigandi innviðum.
Pútín minnti á að hann hefði fundað með héraðsstjóranum í Belgorod í síðustu viku og hafi þá gefið honum „sérstök fyrirmæli“ um að stöðuna í héraðinu, hvernig aðstoða skuli íbúana og „fjjölda annarra mála“.
„Að sjálfsögðu er forgangsatriði að uppræta hættuna á að skotið verði á svæðin en það er hlutverk hersins,“ sagði Pútín.