Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur undanfarna daga deilt sturluðum staðreyndum um efnahagsmál á Facebook hjá sér.
Fyrsta staðreyndin varðar vexti á yfirdráttarlánum, en hann veitti því eftirtekt að vextir á yfirdrætti eru orðnir svo háir að þeir eru þeir sömu og dráttarvextir.
„Vextir á yfirdráttarlánum eru 13,75% reiknaðir mánaðarlega (14,65%)) á meðan dráttarvextir eru 13,75%
Vextir á yfirdráttarlánum bankanna þriggja eru nákvæmlega þeir sömu, þrátt fyrir grjótharða „samkeppni“.
Spurning hvort þú hringir í bankann þinn og færð hann til að skrá yfirdráttinn sem vanskil?
Milljón króna yfirdráttur kostar 146.505 kr á ári [vextir reiknaðir mánaðarlega) en 137.500 kr. ef hann væri á dráttarvöxtum.
Bankarnir eru bókstaflega að tapa sér í græðginni.“
Næsta staðreynd fjallaði um vexti á veltureikningum. En þeir eru 0,75 prósent hjá Íslandsbanka og Landsbanka en 0,4 prósent hjá Arionbanka.
„Vextir á viðskiptareikningi bankanna hjá Seðlabanka Íslands eru í dag 5,75%. Bankarnir greiða viðskiptavinum sínum 0,4-0,75% í vexti á viðskiptareikningum en þeir fá síðan 5,75% vexti á sínum viðskiptareikningum hjá Seðlabanka Íslands.
Álagning bankanna á veltureikningum eru því lítil 1338% hjá Arionbanka en hún er „aðeins“ 667% hjá Íslandsbanka og Landsbankanum.
Bankarnir eru bókstaflega að tapa sér í græðginni.“
Þriðja sturlaða staðreyndin fjallaði um vaxtatekjur bankanna sem hafa verið með hæsta móti undanfarið.
„Hreinar vaxtatekjur bankanna voru tæplega 100 milljarðar fyrstu 9 mánuði ársins 2022 og höfðu hækkað um rúmlega 19,7 milljarða miðað við fyrstu 9 mánuði ársins 2021 þegar þær voru 80,2 milljarðar.
Áætla má að hrein aukning á vaxtatekjum bankanna verði 27 milljarðar á árinu 2022 og verði um 133 milljarðar.
Bankarnir soga til sín fjármagn frá skuldugum heimilum og fyrirtækjum í boði stjórnvalda og Seðlabanka.
Þessa botnlausu græðgi verður að stoppa með öllum tiltækum ráðum.“