Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi sérfræðingur Sky Sports er sannfærður um að sitt gamla félag muni versla mikið í næsta félagsskiptaglugga.
Liverpool hefur ekkert verslað í janúar og ætla sér ekki að bæta við leikmannahóp sinn. Það veldur pirringi hjá sumum af stuðningsmönnum liðsins þar sem gengi liðsins hefur ekki staðið undir væntingum.
Liverpool situr í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir og telur Carragher að stigið verði fast á bensíngjöfina er kemur að næsta félagsskiptaglugga hjá félaginu.
„Meiðslalega séð hafa þeir átt mjög slæmt tímabil. Stundum er það bara hrein óheppni, stundum tengist það því hvernig meiðsli eru meðhöndluð, hver á í hlut. Liverpool hefur ekki fyllt upp í skarð læknis sem yfirgaf félagið síðasta sumar, hvort það sé vandamálið veit ég ekki.
En liðið hefur verið mjög óheppið og þurfa að lappa upp á læknateymi sitt, engin spurning.“
Hvað félagsskiptin varðar hafði Carragher þetta að segja við Sky Sports um Liverpool:
„Ég skil pirringinn hjá stuðningsmönnum Liverpool þegar að þeir sjá önnur félög spreða miklum peningum í leikmenn hægri vinstri á meðan að ekkert gerist hjá Liverpool, þetta lítur út eins og félagið hafi gefist upp á að reyna ná Meistaradeildarsæti.“
Carragher myndi hins vegar aldrei vilja að sitt félag myndi panikka á síðustu andartökum félagsskiptamarkaðsins.
„Það sem félagið gerir ekki á félagskiptamarkaðnum er að panikka og ég tel knattspyrnustjóra liðsins, Jurgen Klopp, hafa sýnt það að hann kann sitthvað á markaðnum, til að mynda með tilkomu Virgil van Dijk.
Hvort að Liverpool sé ekki að fá til sín leikmenn núna vegna þess að þeir eiga ekki peninginn til, eða að leikmaðurinn sem Klopp vill er ekki fáanlegur á markaðnum er bara allt önnur umræða.“
Hann er sannfærður um að Liverpool muni gera mikið á félagsskiptamarkaðnum í sumar þar sem félagið hefur meðal annars verið orðað við enska landsliðsmanninn Jude Bellingham.
„Ég er viss um að margir stuðningsmenn hafi viljað sjá eitthvað mikið og stórt gerast í janúar en ég myndi ekki vilja að Liverpool færi aftur í sama gamla farið sem var við lýði þegar að ég var leikmaður félagsins. Þá voru keyptir leikmenn og eftir það var vonað að samstarfið myndi ganga upp.
Undanfarið hafa kaup félagsins verið á þá leið að Klopp fær leikmanninn sem hann vill, það er beðið eftir honum sé þess þörf en aldrei panikkað.“