Stuðningsmenn enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea eru sannfærðir um að félagið hafi sent fulltrúa sína í einkaþotu til Portúgal til þess að ganga frá kaupum á argentínska miðjumanninum Enzo Fernandez.
Það er Daily Mail sem greinir frá en glöggir stuðningsmenn Chelsea hafa fylgst náið með flugumferð á vefsíðunni FlightRadar 24.
Þar veittu þeir eftirtekt einkaþotu sem tók á loft frá Farnborough á Englandi og hélt áleiðis til Lisabon í Portúgal.
Forráðamenn Benfica meta þessa stundina hvort þeir eigi að taka 105 milljóna punda tilboði Chelsea í Enzo Fernandez sem hefur undanfarið slegið í gegn, bæði með Benfica en einnig argentínska landsliðinu sem varð heimsmeistari undir lok síðasta árs.
Umræddir stuðningsmenn Chelsea vilja meina að einkaþotan sem um ræðir sé sama einkaþota og flaug til Madrid á Spáni á dögunum þegar gengið var frá samningum við sóknarmanninn Joao Felix.