Íslenski landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson, miðjumaður FC Kaupmannahafnar er ekki á förum frá félaginu þrátt fyrir áhuga annarsstaðar frá ef marka má orð Jacob Neestrup, þjálfara FCK.
Í samtali við bold.dk á æfingasvæði FCK var Neestrup spurður út í stöðu Hákons Arnar sem hefur verið orðaður við brottför frá félaginu og er Red Bull Salzburg í Austurríki sagt hafa lagt fram tilboð í leikmanninn, það fullyrðir vefsíðan Fótbolti.net
„Það hafa verið sögusagnir á kreiki en hann er ekki á förum. Hann verður enn hér 1. febrúar.“
Hinn 19 ára gamli Hákon Arnar hefur verið á mála hjá FCK síðan árið 2019 en hann gekk til liðs við félagið frá ÍA og hóf að spila með yngri liðum FCK.
Hann vann sig hratt upp í aðalliðið og hefur nú spilað 40 leiki með því, skorað 6 mörk og gefið 5 stoðsendingar.