Örvæntingafull leit stendur nú yfir í Englandi að tveggja barna móður, Nicola Bulley, en ekkert hefur til hennar sést í þrjá daga. Síðasta föstudagsmorgun fór Bulley út í göngutúr með hundinn sinn og ætlaði að nýta tímann til þess að taka símafund vegna vinnu sinnar. Á meðan símtalinu stóð virðist Bulley, sem er tveggja barna móðir, hafa horfið sporlaust.
Bulley sást síðast í bænum St Michael’s on Wyre í Lancashire-sýslu í Norðvestur-Englandi, nærri borginni Blackpool.
Skömmu eftir hvarf hennar fannst sími hennar á bekk við ánna Wyre, sem liggur í gegnum bæinn, og var símafundurinn enn í gangi. Skammt frá fannst svo hundurinn hennar á reiki án eiganda síns.
Þegar Bulley skilaði sér ekki heim til sín hófst fljótlega víðtæk leit að henni sem hefur staðið yfir alla helgina. Leitað hefur verið á lofti og í láði af viðbragðsaðilum en ekki tangur né tetur hefur sést af henni.
Bulley, sem er 45 ára, á tvær ungar dætur með sambýlismanni sínum Paul. Í viðtali við The Sun segir hann að fjölskyldan sé að ganga í gegnum helvíti og þau upplifi óraunveruleika tilfinningu útaf hvarfi Bulley.
„Við verðum að finna hana. Hún á tvær dætur hér heima sem þarfnast hennar,“ hefur The Sun eftir sambýlismanninum.
Enginn ummerki hafa verið um einhverskonar átök eða að Bulley hafi verið numinn á brott. Lögreglan lítur því ekki á að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað en það gæti breyst ef nýjar upplýsingar koma fram.