Óvæntu fréttir dagsins úr knattspyrnuheiminum eru þær að Joao Cancelo, bakvörður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester City hefur líklegast leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. Samningar hafa tekist milli Manchester City og Þýskalandsmeistara Bayern Munchen um félagsskipti Cancelo.
Búast má við því að Cancelo gangi frá félagsskiptum til Bayern Munchen á næsta sólarhringnum, en um er að ræða lánssamning en þó er klásúla í samningnum sem gefur Bayern Munchen möguleika á að kaupa leikmanninn fyrir það sem nemur 61 milljón punda.
Í kjölfar þessara fregna fóru sögur að birtast í breskum miðlum um slæmt samband Cancelo og Guardiola en leikmaðurinn er sagður hafa brugðist ókvæða við á æfingasvæði félagsins eftir að hann var ekki í byrjunarliði Manchester City gegn Arsenal í enska bikarnum.
Cancelo er sagður hafa haft hátt undanfarnar vikur eftir lítinn spilatíma undir stjórn Guardiola hjá City, það olli því að samband hans við knattspyrnustjórann tók stefnu til hins verra og það fljótt, sér í lagi eftir Heimsmeistaramótið í knattspyrnu undir lok árs 2022.
Leikmaðurinn er sagður hafa hótað því að yfirgefa félagið og var ástandið orðið það slæmt, að mati forráðamanna Manchester City, að það yrði best að leyfa leikmanninum að fara því samband hans við Guardiola yrði ekki lagað.
Cancelo gekk til liðs við Manchester City árið 2019 frá ítalska risanum Juventus. Hjá Manchester City varð hann Englandsmeistari í tvígang og enskur deildarbikarmeistari í tvígang. Hann spilaði 154 leiki fyrir félagið, skoraði 9 mörk og gaf 22 stoðsendingar.