Þessar upplýsingar styðja við það sem Úkraínumenn, NATO og ýmsir sérfræðingar hafa sagt að undanförnu um væntanlega stórsókn Rússa.
Ef sóknin hefst innan næstu 4 til 8 vikna þá verður það líklega áður en Úkraínumenn fá þá rúmlega 300 nýju skriðdreka sem bandalagsríki þeirra hafa heitið þeim.
Bloomberg hefur eftir heimildarmönnum sínum að Pútín sé enn sannfærður um að innrásin, sem hófst fyrir rúmum 11 mánuðum, muni enda með sigri Rússa, ekki síst vegna „hins stóra rússneska hers og viljans til að sætta sig við fórnir“.
Markmiðið með stórsókninni er ekki aðeins sagt vera að ná aftur frumkvæði í stríðinu heldur einnig binda á nokkurra mánaða kyrrstöðu og ósigra rússneska hersins. Einnig er markmiðið að leggja þrýsting á Úkraínu í sambandi við hugsanlegar viðræður um þau svæði sem Rússar hafa innlimað en hafa þó ekki full yfirráð yfir.
„Endurteknir ósigrar hafa orðið til þess að margir í Kreml eru orðnir raunsærri varðandi markmiðin og viðurkenna um leið að það verði að teljast ágætis frammistaða að halda núverandi víglínum óbreyttum,“ sögðu heimildarmenn Bloomberg.
Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) sagði í nýlegu stöðumati sínu um gang stríðsins að þær upplýsingar sem Bloomberg hefur fengið passi við mat ISW á sviðsmyndinni í Úkraínu. Segir hugveitan að Kremlverjar séu að undirbúa afgerandi aðgerðir, líklegast í Luhansk, á næstu sex mánuðum til að ná aftur frumkvæði og stöðva sigurgöngu Úkraínumanna.
Heimildarmenn Bloomberg segja að ný herkvaðning geti verið í kortunum í Rússlandi til að styrkja yfirvofandi stórsókn. Í haust voru 300.000 menn kvaddir í herinn. Það er mat vestrænna leyniþjónustustofnana að þessi fjöldi dugi ekki til að hefja stórsókn því Rússar hafi orðið fyrir svo miklu manntjóni fram að þessu.