Lögreglan er kölluð til að sinna margvíslegum verkefnum og reglulega kemur fyrir að grandvarir borgarar sem senda inn tilkynningar séu að mistúlka hlutina. Slíkt átti sér stað í gærkvöldi, samkvæmt dagbók lögreglu, þegar að lögregla knúði dyra á íbúð í hverfi 105 en tilkynnt hafði verið um háværa dynki sem voru að berast úr íbúðunni. Þegar húsráðandi kom til dyra kom í ljós að viðkomandi var að lumbra á svínakjöti með kjöthamri, sennilega í sögulegri snitzelgerð. Ekki fylgir sögunni hvort laganna vörðum var boðið í mat en útkallinu var að minnsta kosti lokið.
Að öðru leyti voru hefðbundin helgarverkefni skráð í dagbók lögreglu. Aðstoð við ölvaða miðbæjargesti, ökumenn undir áhrifum stöðvar og sviptir réttindum eftir atvikum og eftirlit með hvort að skemmistaðir væru mannaðir dyravörðum. Einum slíkum stað var lokað í miðbænum því þar reyndust dyraverðirnir vera án réttinda.
Þá leysti lögreglan upp 200 manna samkvæmi unglinga í miðbænum en þar var verið að veita áfengi til einstaklinga undir 20 ára að aldri.