Það er ekkert leyndarmál að markvarðarstaðan hjá Chelsea er ansi viðkvæm og hefur verið í dágóðan tíma.
Edouard Mendy stóð fyrir sínu í marki Chelsea um tíma en hefur verið fjarverandi undanfarið og var frammistaðan fyrr á tímabilinu ekki heillandi.
Nú er Kepa Arrizabalaga á milli stanganna hjá Chelsea en Spánverjinn hefur ekki heillað marga í langan tíma.
Athygli vekur að nýjasta landsliðsstjarna Bandaríkjanna, Gabriel Slonina, er hjá Chelsea en hann spilaði sinn fyrsta landsleik í vikunni.
Slonina varði mark Bandaríkjanna í 2-1 tapi gegn Serbíu og þótti standa sig mjög vel þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gamall.
Slonina hefur spilað fyrir yngri lið Chelsea en útlit er fyrir að hann fái ekki tækifæri með aðalliðinu og verði lánaður fyrir lok gluggans.
Hann varð yngsti markmaður í sögu bandaríska landsliðsins í tapinu og þykir gríðarlegt efni.