Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudagskvöldum. Gestur með honum var sjálfur Hjörvar Hafliðason, Dr. Football.
Bjarni fór með Stjörnunni úr kjallaranum og upp í efstu deild. Hann sagði að margir ungir hafi fengið mikla ábyrgð enda sé Stjarnan ungt félag. Strákarnir sem voru með honum í árgangi urðu þeir fyrstu til að koma með bikara í hús og fengu í kjölfarið tækifæri snemma í meistaraflokki.
„Ég man að við vorum fimm í hópnum hjá U16 ára landsliðinu í æfingarhóp. Þetta var sterkur hópur. Valdi Kristófers, Siggi Bjarna, Ingólfur Ingólfsson,“ segir Bjarni en það liðu 25 ár frá því Bjarni og félagar komust fyrst upp í deild þeirra bestu og þar til Stjarnan lyfti sínum fyrsta og eina Íslandsmeistaratitli.
Þegar Stjarnan fór aftur niður leituðu leikmenn annað og völdu yfirleitt Fram. „Ef menn gátu eitthvað fóru menn annað. Bestu gæjarnir sem Stjarnan hefur alið af sér, Veigar Páll og Garðar Jóh, eru ekki seldir frá Stjörnunni. Garðar er seldur frá Val og Veigar frá KR. Ef þú gast eitthvað fórstu úr Garðabænum,“ benti Hjörvar á.
Bjarni rifjaði þá upp sögu af þeim félögum. „Ég var að þjálfa þá tvo sem eldri leikmaður. Ætli þeir hafi ekki verið í sjöunda flokki. Og maður sá strax að þeir gátu eitthvað en þeir gátu líka bara verið að spjalla og halda boltanum á lofti,“ sagði hann og hló.