Reykjavík Bridgefestival hófst í Hörpu í gær en það var forsetafrúin Eliza Reid sem setti Bridgehátíðina.
Yfir 700 spilarar eru skráðir til þátttöku. Um er að ræða eitt fjölmennasta bridgemót sem hefur verið haldið á Íslandi frá upphafi og hafa skráningar farið fram úr bjartsýnustu vonum að sögn Matthíasar Imsland, framkvæmdastjóra Reykjavik Bridgefestival og Bridgesambands Íslands. Mörg heimsfræg erlend pör eru meðal keppenda og sterkustu pör Íslands eru einnig með.
Þegar búnar eru 12 umferðir af tvímenningi á Bridgehátíð í Hörpu nú um miðjan dag eru Hjördís Eyþórsdóttir og Janice Seamon-Molson í efsta sætinu. Þær eru með 61,7% skor. Hjördís er íslensk að uppruna, en búsett í Bandaríkjunum. Hjördís hefur oft verið meðlimur í kvennalandsliði Bandaríkjanna. Þær Hjördís og Janice hafa orðið heimsmeistarar kvenna. Þýska parið Sabine Auken og Roy Welland er í öðru sæti með 60,5% skor en Ómar Olgeirsson og Stefán Jóhannsson, sem leitt hafa mótið mestallan tímann, eru í þriðja sæti með 59,6% skor.