Raðmorðinginn Jeffrey Dahmer vakti aftur athygli nýlega þegar leiknir þættir um hann komu út og vakti það óhug hjá mörgum að sjá hrottaleg morð hans rifjuð upp með dramatískum hætti.
Einkum sárnaði fjölskyldum hinna látnu þessi upprifjun og kunnu framleiðendum þáttanna litlar þakkir.
Áður en þættirnir komu út reyndi þó einn maður að halda minningu Dahmer á lofti. Hinn 21 árs gamli Chance Seneca frá Louisiana í bandaríkjunum hefur nú verið dæmdur í 45 ára fangelsi fyrir mannrán og tilraun til manndráps.
Seneca tilbað Jeffrey Dahmer og vildi fylgja í fótspor hans. Árið 2020 náði hann í stefnumótaforritið Grindr, þar sem samkynhneigðir menn leita ástarinnar, og hitti þar mann að nafni Holden White.
Þeir ákváðu að hittast. Þegar þeir hittust frelsissvipti Seneca White og fór með hann að yfirgefnu húsi þar sem hann svo handjárnaði hann og reyndi að beita nokkrum ólíkum aðferðum til að ráða hann af dögum.
Síðar fundust hamar, sög og ísnál á vettvangi glæpsins.
Seneca taldi að lokum að honum hefði tekist ætlunarverk sitt og ætlaði þá að aflima White, líkt og Dahmer gerði við sín fórnarlömb. En White var þó ekki látinn.
Það vissi Seneca þó ekki þegar hann hafði sjálfur samband við lögreglu og gaf sig þar fram og sagðist hafa myrt mann. Þar gekkst hann við glæp sínum og tók jafnframt fram að það væri hans ætlun að halda áfram að myrða samkynhneigða menn allt þar til hann yrði gómaður af lögreglu eða þar til hann léti sjálfur lífið. Óskaði hann eftir því að vera lagður inn á geðdeild.
Hann var haldinn þráhyggju. Hann var heltekinn af þeirri tilhugsun að myrða samkynhneigða menn og hafði í því skyni varið mánuðum að leggja á ráðin um hvernig hann ætlaði að bera sig að við morðin og byggði þau áform á átrúnaðargoðinu – Jeffrey Dahmer.
Seneca ætlaði sér einnig að borða líkamsleifar þolenda sína – rétt eins og Dahmer.
Sem betur fer tókst honum ekki ætlunarverk sitt og White er á lífi, en þurfti þó að verja nokkrum dögum á sjúkrahúsi þar til hann komst til meðvitundar á ný. Hann er enn með ör til marks um tilraunir Seneca til að aflima hann.
White sagði í viðtali við KATC: „Þetta er hatursglæpur því hann gerði það að markmiði sínu að velja samkynhneigðan mann á forriti fyrir samkynhneigða. Hann gekk úr skugga um að ég væri samkynhneigður og á sama tíma tilbað hann Jeffrey Dahmer. Það sem Jeffery Dahmer gerði var að velja samkynhneigða menn og lokka þá heim til sín þar sem hann myrti þá.“
White sagði svo á Facebook eftir að dómur féll í málinu að hann væri engu að síður enn hræddur. 45 ár væri ekki nóg og óttaðist hann um sitt eigið öryggi sem og öryggi þeirra sem Seneca gæti skaðað í framtíðinni. „Ég er hræddur að 18 ára aðili, eins og ég, muni lenda í því að líf þeirra breytist til frambúðar út af stefnumóti. Ég vil ekki að neinn lendi í því sem ég lenti.“
White glímir enn við bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar af brotinu.
Saksóknarinn Kristen Clarke sagði að málið væri verulega sláandi og ákvörðun Seneca að gera samkynhneigða að skotmörkum sínum væri áminning um fordóma gegn hinsegin fólki og þær hættur sem þeim stafar af síkum fordómum.
„Internetið á að vera aðgengilegt og öruggt fyrir alla Bandaríkjamenn, burtséð frá kyni þeirra eða kynhneigð. Við munum halda áfram að bera kennsl á og stöðva hættulega aðila sem vopnavæða stafræna miðla til að herja á hinsegin þolendur til að fremja ofbeldis- og hatursglæpi.“