Gareth Southgate, landsliðsþjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu segist hafa íhugað það alvarlega að segja starfi sínu sem landsliðsþjálfari lausu eftir HM í Katar undir lok síðasta árs.
Á endanum ákvað hann þó að halda áfram tryggð við liðið en Southgate veitti BBC ítarlegt viðtal á dögunum, það fyrsta eftir ákvörðunina stóru.
Enska landsliðið féll úr leik á HM í Katar eftir tap gegn Frakklandi í átta liða úrslitum mótsins en hafði árið áður komist í úrslit EM á heimavelli.
,,Ég vildi aldrei finna mig í þannig stöðu að nærvera mín sé að hafa neikvæð áhrif á liðið,“ segir Southgate í samtali við BBC.
,,Ég trúði því að það væri ekki raunin hjá mér og enska landsliðinu en vildi samt sem áður bara taka mér tíma eftir HM til þess að leggja mat á mína stöðu, vera alveg viss um það hvernig mér liði.
Southgate segist hafa spurt sig að því hvort það væri hið rétta í stöðunni að halda áfram sem landsliðsþjálfari.
,,Því ég vildi vera viss um að hungrið og ferskleikinn væri enn til staðar.“
Hann segir stöðu sína sem landsliðsþjálfari enska landsliðsins vera sinn mesta heiður á lífsleiðinni. Ákvörðunin um að halda vegferðinni með landsliðinu áfram hafi á endanum ekki verið erfið.
,,Liðið er enn að taka framförum. Við erum allir sífellt að öðlast meiri trú á því sem við erum að gera.“