Paul Ince, fyrrum leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, snýr aftur á sinn gamla heimavöll Old Trafford á laugardaginn er hann stýrir núverandi liði sínu Reading í leik gegn Manchester United í ensku bikarkeppninni.
Í innslagi sem tekið var upp nú í aðdraganda leiksins var Paul Ince spurður út í örlagaríka stund í hans lífi, á hans knattspyrnuferli árið 1995, þegar að Sir Alex Ferguson þáverandi knattspyrnustjóri Manchester United hringdi í hann og tjáði Ince að félagið hefði samþykkt tilboð í hann.
Ince var þá 27 ára gamall að spila golf með liðsfélaga sínum hjá Manchester United, Ryan Giggs, þegar að sími hans hringdi. Á hinni línunni var Sir Alex.
,,Hann spurði mig hvar ég væri og ég svaraði honum því að ég væri að spila golf. Þá sagðist hann þurfa að hitta á mig. Ég svaraði því á þá leið að ég myndi þá líta við á skrifstofunni hans morguninn eftir en þá sagðist hann þurfa sjá mig undir eins.“
Ince gerði sér því ferð á félagssvæði Manchester United nær samstundis til þess að hitta Sir Alex sem tjáði Ince að félagið hefði samþykkt tilboð frá efstu deildar liði Inter Milan á Ítalíu.
,,Á þessum tíma hafði ég verið í viðræðum við Manchester United um nýjan fjögurra ára samning og hafði eytt tíu árum hjá félaginu þannig að auðvitað var þetta sjokk fyrir mig.
Ég átti enn eftir að ná hátindi míns ferils en eftiráhyggja var þetta eitt það besta sem gerðist fyrir mig, að fara til Inter Milan. Ég lærði nýtt tungumál, upplifði nýja menningu. Þá var Serie A besta deildarkeppni í heimi á þessum tíma.“
Ince segir það hafa verið frábært að upplifa Ítalíu en hann hafi hins vegar ekki viljað fara frá Manchester United.
,,Nei, af hverju hefði ég átt að vilja það? Við vorum nýbúin að eignast son okkar Thomas, hann var aðeins 2 ára á þessum tíma.
Við vorum nýbúin að finna leikskóla handa honum og allt klappað og klárt fyrir okkur sem fjölskyldu að vera í Manchester næstu fjögur árin.“
Knattspyrnumenn vilji upplifa það að þeir séu metnir að sínum verðleikum, eftirsóttir hjá sínu félagi.
,,Ég upplifði það ekki á þessum tíma en skildi þó og virti ákvörðun knattspyrnustjórans sem vildi ekki hafa mig lengur hjá félaginu og hélt því áfram.“
Paul Ince returns to Old Trafford this weekend – some good insight here from a player’s perspective of how it feels when a club tells you you’re being sold
— 101 Great Goals (@101greatgoals) January 26, 2023