Útvarpskonan Kristín Björgvinsdóttir kom unnusta sínum, Stefáni Jakobssyni söngvara Dimmu, rækilega á óvart með ferð til Liverpool og miða á fótboltaleik. Hann var alveg grunlaus og hélt að þau væru að fara í brúðkaup. Viku áður hafði hún gefið honum umslag með lykli, en í ferðinni kom í ljós að hverju lykilinn gengur.
Kristín sagði frá óvænta ferðalaginu í morgunþættinum Ísland vaknar á K100. Hún viðurkenndi að það hafi verið erfitt að halda þessu leyndu. „Það er gaman að koma einhverjum á óvart en pínu erfitt því ég var orðin svo spennt,“ sagði hún.
Útvarpskonan pantaði ferð fyrir þau til Liverpool og keypti einnig miða á fótboltaleik með samnefndu liði, en Stefán er mikill Liverpool aðdáandi.
Stefán vinnur mikið um helgar og til að tryggja að hann myndi verða laus þessa helgi sagði Kristín honum að þau væru að fara í brúðkaup í Kaupmannahöfn 20. janúar.
„Það er ógeðslega auðvelt að koma Stefáni á óvart. Hann spyr ekki mikið. Hann spurði: „Í hverju á ég að vera í brúðkaupinu?“ Sem er frábært, því þetta er bara fullkomið traust,“ sagði hún.
Sjá einnig: „Besti pabbi í heiminum og besti maki sem hugsast getur“
„Hann átti afmæli 14. janúar og fékk mjög lítið í afmælisgjöf þá. Hann var að vinna og gera alls konar, það var mjög leiðinlegt en ég gaf honum eiginlega ekki neitt. Ég gaf honum umslag með bréfi og lyklakippu með lykli á,“ sagði hún.
Það kom svo í ljós í ferðinni að hverju lykillinn gengur. „Ég sagði við Stefán að hann þyrfti að vera með lykilinn í ferðinni. Ég sagði honum að einhvern tíma myndi birtast tækifæri til að nota lykilinn. Og það gerðist, ég náði því á myndband og það var mjög fyndið.“
Kristínu tókst að halda Stefáni grunlausum alveg þar til það var kominn tími til að stíga um borð í vélina.
„Í töskunni minni var ég með lítinn gjafapoka með Liverpool treyju. Við vorum komin upp að hliðinu hjá fluginu til Kaupmannahafnar,“ sagði hún, en það var lítill tímamismunur á brottfarartíma til Kaupmannahafnar og Liverpool. „Og ég bað hann um að bíða aðeins, að ég þurfti að sækja eitthvað í töskunni minni. Ég rétti honum gjafapokann og tilkynnti að við værum ekki að fara í brúðkaup heldur á fótboltaleik í Liverpool.“
Kristín náði myndbandi af viðbrögðum hans og deildi því á Instagram, ásamt fleiri skemmtilegum augnablikum úr ferðinni.
View this post on Instagram
Svo kom að lyklinum. „Fyrsta daginn fórum við á Bierkeller sem er staður í Liverpool og fengum okkur að borða. Ég bað hann um að sækja eitthvað fyrir mig að drekka, en þá var ég búin að setja pakkann hans, sem var með hengilás, út á borðið og barþjónninn vissi af því […] Svo sá Stebbi pakkann og ég náði því á myndband þegar hann var að skoða pakkann og var eitthvað að virða hann fyrir sér, en svo gekk hann í burtu því hann hélt þetta væri fyrir þjórfé,“ sagði Kristín, en á endanum fattaði hann þetta og gat opnað pakkann með lyklinum sem hann fékk vikuna áður.
Kristín kom honum á óvart með fleiri skemmtilegum uppákomum og skemmtu þau sér konunglega þessa helgi. Hún sagði alla sólarsöguna í Ísland vaknar sem má hlusta á hér.