Myndin var tekin á þriðjudaginn þegar lögreglan var við störf á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Þar kom upp gasleki í skóla og sambyggðum leikskóla. Af þeim sökum þurfti að rýma skólana.
Lekinn kom upp í miðjum hádegisblundi yngstu leikskólabarnanna og því var ekki annað til ráða hjá lögreglumönnum en að flytja sofandi börnin í barnavögnunum yfir í Frederiksberg Centret, sem er í um 400 metra fjarlægð frá skólanum, þar sem móttökustöð hafði verið komið upp fyrir börnin.
Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við TV2 að myndin sýni vel að lögreglumenn lenda í fjölbreyttum verkefnum.
Peter Lykke Lind, sem á tvö börn á leikskólanum, hrósaði lögreglunni og leikskólakennurunum fyrir framgöngu þeirra og sagði að þeim hafi tekist að gera þetta að skemmtilegri upplifun fyrir börnin. Þeim hafi fundist spennandi að vera flutt yfir í verslunarmiðstöðina og fá að vera að leik í tómu verslunarrými á þriðju hæð þar til foreldrar þeirra komu og sóttu þau.