Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er snúin aftur í Stjörnuna eftir ellefu ár erlendis.
Í gær staðfesti landsliðskonan að hún væri að yfirgefa Orlando Pride í Bandaríkjunum, þar sem hún hefur leikið undanfarin tvö ár.
„Eftir 11 ára fjarveru er algjör draumur að vera komin aftur heim í Garðabæinn. Stjörnuhjartað hefur aldrei verið stærra. Leikmannhópurinn er einstaklega spennandi og það sem Kristján og Andri eru búnir að byggja upp hérna er magnað, ég er spennt fyrir því að byrja og fá tækifærið til þess að spila með öllum þessum frábæru leikmönnum. Áfram Stjarnan, forever and always!“ segir Gunnhildur í tilkynningu Stjörnunnar.
Auk þess að spila með Orlando hefur hún verið á mála hjá liðum á borð við Utah Royals, Valarenga og Stabæk í atvinnumennsku.
Gunnhildur á að baki 96 landsleiki með A-landsliði Íslands og skorað í þeim 14 mörk.
Hér að neðan má sjá tilkynningu Stjörnunnar og skemmtilegt myndband sem félagið birti.