fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Stóra kókaínmálið: Páli timbursala fannst þetta spennandi og hann gat ekki sagt nei

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 25. janúar 2023 17:00

Frá aðalmeðferð Stóra kókaínmálsins í Héraðdsómi Reykjavíkur. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vitnaleiðslum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar standa til 9. febrúar og þangað til hvílir fréttabann á fjölmiðlum um gang málsins fyrir dómi. DV sat fyrsta dag vitnaleiðslanna þar sem timbursalinn Páll Jónsson gaf skýrslu. Ekki er hægt að greina frá efni þess vitnisburðar fyrr en síðar. Hins vegar hefur RÚV fengið afhenta greinargerð lögmanns Páls í málinu, sem og greinargerð eins annars sakbornings, og fer yfir málflutning þeirra eins og hann birtist þar.

Kemur meðal annars fram að Páll vissi að timbursending sem hann lét flytja frá Brasilíu til Íslands sumarið 2022, með viðkomu í Hollandi, innihélt kókaín. Hann vissi hins vegar ekki um magnið og segist ekki hafa grunað að það væri svo mikið sem raun ber vitni, eða rétt tæplega 100 kg, sem gerir málið að stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar, sem fyrr segir. Þetta hefur raunar áður komið fram í birtum gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Páli.

Sjá einnig: Páll timbursali viðurkenndi að hann hefði vitað af kókaíni í timbursendingunni

Páll sker sig frá hinum þremur sakborningunum í málinu, ekki síst fyrir það að hann er miklu eldri. Hinir mennirnir eru um og undir þrítugu en Páll, sem er fjölskyldumaður, er að nálgast sjötugt. Ennfremur voru fíkniefnin flutt í gegnum fyrirtæki Páls, Hús og harðviður. Fyrir utan sakborningana fjóra má ráða af ákæru og gæsluvarðhaldsúrskurðinum, auk greinargerðanna sem RÚV hefur komist yfir, að aðrir aðilar hafi komið að málinu og verið í raun höfuðpaurar. Mennirnir eru m.a. ákærðir fyrir peningaþvætti enda voru tugir milljóna millifærðir inn á reikninga þeirra í tengslum við smyglið.

Er sendingin kom til Hollands skiptu lögreglumenn út efnunum í timbrinu fyrir gerviefni og kom því kókaínið í raun aldrei til Íslands. Páll og samverkamaður hans voru handteknir er þeir voru að flytja efnin úr gáminum eftir að það kom hingað til lands.

Segist engar ákvarðanir hafa tekið í málinu

Í greinargerðinni sem RÚV segir frá kemur fram að Páll segist lítið sem ekkert hafa vitað um málið, hann hafi engar ákvarðanir tekið í því og ekki þekkt til hinna mannanna sem voru ákærðir. Páll kveðst ekki hafa vitað um magn eða styrkleika kókaínsins og neitar að hafa samið sérstaklega um greiðslu sér til handa. Hann hafi einungis haft óljósa hugmynd um að „gera ætti vel við hann.“

Páll greinir frá því að hann hafi flutt keypt og flutt inn harðviðarhús fyrir mennina í febrúar árið 2022. Ekkert saknæmt hafi átt sér stað varðandi þau viðskipti og hann hafi fengið vel greitt fyrir.

Síðan hafi honum verið skýrt frá því að hann ætti að flytja inn annan gám en í honum skyldu vera timburstaurar sem innihéldu fíkniefni. Páll viðurkennir að hann hafi látið til leiðast. Í greinargerðinni segir að útreikningur gefi til kynna að í hverjum staur ætti að vera pláss fyrir um eitt kíló af kókaíni, út frá þeim upplýsingum sem Páll hafi fengið. Það hafi því í mesta lagi litið út fyrir að vera sjö kíló samtals. Páll hafi því látið sér í léttu rúmi liggja að verið væri að flytja inn um sjö kíló af kókaíni til landsins.

Í greinargerðinni viðurkennir Páll að honum hafi fundist þetta spennandi og ekki fundist hann geta hafnað mönnunum því þeir hafi verið búnir að greiða honum háar fjárhæðir vegna harðviðarhússins sem hann flutti inn fyrir þá í febrúar (kókaínsmyglið átti sér stað í ágústmánuði). Hann hafi síðan reynt að koma sér undan þessu en þá hafi honum verið tjáð að það væri of seint enda búið að fjárfesta í kókaíninu og koma því fyrir í timburstaurum sem voru tilbúnir til innflutnings.

„Í greinargerðinni segir að bankagögn Páls sýni að hann hafi ekki komið nálægt fjármögnun vegna kaupa á kókaíninu. Hér um bil hver einasta króna sem honum voru fengnar í hendur hafi farið í kaup á timbri, til þess að greiða aðflutningsgjöld, tolla, laun til starfsmanna og verktaka, og þess háttar,“ segir ennfremur í frétt RÚV.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus
Fréttir
Í gær

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?