fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Mögnuð fæðingarsaga Mónu Lindar – Fór að pissa og fæddi dótturina inn á baði

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 25. janúar 2023 20:29

Móna Lind. Aðsendar myndir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móna Lind Kristinsdóttir, tölvuleikjastreymir, tók á móti dóttur sinni inni á baði heima hjá sér. Hún bjóst ekki við því að stúlkan myndi koma svona fljótt í heiminn, kærastinn var að elda núðlur og hún pollróleg.

Móna Lind er vinsæll tölvuleikjastreymir og er þekkt sem DiamondMynXx á Twitch. Hún var áður að streyma einnig á GameTíví.

Fyrr í mánuðinum eignaðist Móna Lind sitt annað barn og er fæðingarsaga hennar ansi mögnuð. Hún tók á móti dóttur sinni inni á baðherbergi heima, en hún var alveg á því að hún væri enn á fyrstu stigum fæðingar þegar stúlkan kom í heiminn.

Við fengum Mónu til að deila sögunni með okkur.

Móna Lind. Mynd/Instagram

Var mjög róleg og leið vel

Móna Lind vaknaði um átta leytið þann 11. janúar og fann samdrætti yfir daginn.

„Ég hélt venjulegri rútínu út daginn og var ekkert að tímasetja samdrættina. Fékk mágkonur mínar og mömmu í kaffi, fór í Krónuna og drakk kaffi og með því með foreldrum mínum og kvaddi þau um 16:00,“ segir Móna.

Kærasti hennar, Jón Aðalberg, kom heim úr vinnu laust fyrir fimm og sendi Móna ljósmóður sinni skilaboð um samdrætti síðasta klukkutímans, en þá voru um fimm til sex mínútur á milli samdrátta.

„Hún ætlaði að koma um 19:00 að skoða mig og ég var mjög róleg og leið mjög vel. Mér fannst þetta bara mjög mildir „verkir,““ segir hún og bætir við að allt ferlið fann hún aldrei fyrir miklum verkjum heldur myndi hún frekar lýsa þeim sem kröftugum samdráttum.

Litla daman. Aðsend mynd.

„Þú átt eftir að fæða hana inn á baði“

Stuttu seinna fékk hún nokkra samdrætti sem voru það kröftugir að hún þurfti að anda sig í gegnum þá. „Enn þetta var samt bara enn milt í mínum huga,“ segir hún kímin.

Til stóð að Móna ætlaði að fæða í uppblásinni laug heima hjá sér og var Jón búinn að spyrja hana tvisvar hvort hann ætti nú ekki að fara að græja hana, þar sem honum fannst hún komin lengra en Móna taldi sig vera.

„Ég sagðist ekki vilja gera neitt fyrr en eftir að Rebekka ljósmóðir myndi skoða mig. Allt í einu fór ég að hágráta og sagði Jóni að ég sé bara með svo miklar tilfinningar og væri að springa úr ást,“ segir hún hlæjandi.

„Ég sagði honum líka að ég væri hrædd að verða fyrir vonbrigðum ef allt myndi svo bara detta niður. Ég stóð upp af jógaboltanum til að fara að pissa. Jón sagði þá: „Þú átt eftir að fæða hana inn á baði.““

Litla sem þau vissu var að Jón hafði rétt fyrir sér.

Aðsend mynd.

Var frammi að sjóða núðlur

„Ég pissaði og stakk fingri inn til að finna og þar fyrir innan, svona fimm til sjö sentimetra, fann ég bara kollinn. Ég fór af klósettinu og settist á hækjur mér við vaskborðið á baðinu og sagði mjög hátt: „Jón, hringdu í Rebekku!“ Jón var frammi að sjóða núðlur,“ segir Móna og hlær.

„Hann kom og hringdi í ljósuna klukkan 18:22. Hann var svo hjá mér þar sem ég var á fjórum fótum ofan á handklæði, ég leyfði honum að finna hvar kollurinn væri og sagði: „Hausinn er að koma niður!“ Svo kom ljósmóðirin inn um hurðina en á þessum tímapunkti var ég búin að sjá fyrir mér að við værum bara að fara að taka á móti henni tvö þarna og ég var alveg róleg yfir því.“

Móna notaði öndunartækni sem hún lærði á meðgöngunni. „Ég leiðbeindi hausnum varlega út og hún fæddist svo í einum rikk klukkan 18:32.“

„Hálftíma eftir að þessi bumbumynd var tekin var ég komin á fjórar fætur á baðherbergisgólfið og hún var fædd 20 mínútum seinna.“

„Ég var aldrei hrædd, ég vissi að ég treysti líka mínum 100 prósent að gera þetta og treysti mér og Jóni að gera þetta tvö ef ljósan hefði ekki komist í tæka tíð. Hann var mikilvægasti stuðningurinn minn, mjög rólegur og góður við mig. Litla daman gaf engum tíma til að vera með í fæðingunni öðrum en okkur foreldrunum,“ segir hún.

„Ég hefði ekki getað beðið um betri heimafæðingu og þakka Lífið – Heimafæðingar kærlega fyrir. Þó við gerðum þetta allt sjálf þá voru þær mikilvægur stuðningur á meðgöngunni og eftir fæðinguna.“

Móna Lind hefur verið opin um fæðingarferlið og undirbúninginn á Instagram. Hún deildi nokkrum færslum í highlights þar sem hún fór nánar út í undirbúningsferlið, andlegu líðanina eftir fæðingu og bar saman þessa fæðingu við fæðingu eldri dóttur sinnar.

Móna með dóttur sína í fanginu. Aðsend mynd.

Hefur barist við endómetríósu í mörg ár

Móna Lind hefur barist við endómetríósu síðan hún var fjórtán ára gömul og gengist undir þrjár aðgerðir. „Ég var ólétt í síðustu aðgerðinni og vissi það ekki fyrr en tæplega fjórum vikum seinna, komin átta vikur á leið,“ segir hún.

„Ég borgaði sjálf fyrir aðgerð hjá Klínikinni þegar sjúkratryggingar voru ekki byrjaðar að taka þátt í að greiða niður aðgerðir á þeirra vegum. Ég safnaði sjálf um 400 þúsund krónum og svo var yndislegt fólk í kringum mig sem gaf mér rest upp í 700 þúsund. Ég vil koma fram þakklæti mínu til þeirra sem gerðu mér kleift að komast í þessa lífsnauðsynlegu aðgerð.“

Tölvuleikjastreymir

Móna Lind hefur verið að streyma tölvuleikjum á Twitch í rúmlega tvö ár. Síðan þá hefur hún verið með ótal margar skemmtilegar uppákomur á streyminu, byrjað að selja varning og geta áhugasamir fylgt henni á Twitch með því að smella hér og Instagram með því að smella hér.

Hún var einnig að streyma vikulega á Queens rásinni á GameTíví. „Vá, þetta ævintýri með Valgerði vinkonu í rúmlega ár var mjög skemmtilegt. Ég er virkilega þakklát fyrir þann tíma og lærði helling þar. En ég ákvað að segja skilið við það verkefni þar sem ég var að fara að taka á móti barni númer tvö,“ segir hún.

„Nú er fókusinn minn bara á litla krílið okkar og fjölskylduna, vini og tölvuleikjaspilun og að streyma á DiamondMynXx rásinni minni á Twitch.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram
Fókus
Fyrir 2 dögum

Selena Gomez trúlofuð

Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“

Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sagan af Kóngsa geimfara er ný barnabók eftir Laufeyju Arnardóttur

Sagan af Kóngsa geimfara er ný barnabók eftir Laufeyju Arnardóttur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“