Knattspyrnudómarinn Mark Clattenburg hefur flúið Egyptaland vegna hótanna í sinn garð.
Fjallað er um málið í enskum miðlum. Clattenburg var fremsti dómari ensku úrvalsdeildarinnar eitt sinn en hann yfirgaf deildina árið 2017 til að vera yfir dómaramálum í Sádi-Arabíu.
Undanfarið hefur hann verið yfir egypskum dómurum en nú er starf hans í uppnámi eftir að hann flúði landið.
Samkvæmt The Sun sagði forseti Zamalek í Egyptalandi, Mortada Mansour, Clattenburg vera samkynhneigðan, eitthvað sem er ekki talið rétt.
Mansour sagði Clattenburg hafa yfirgefið eiginkonu sína til að vera með karlmanni.
Hefur þetta leitt til þess að Clattenburg hefur fengið fjölda hótana frá knattspyrnuáhugamönnum og hefur hann nú flúið landið af ótta um eigið líf.
Þetta er ekki eina vandamál Clattenburg í Egyptalandi. Hann hefur ekki fengið greitt fyrir störf sín undanfarna tvo mánuði.