Morgunblaðið skýrir frá þessu og segir að um frávik frá útdeilingarreglum sjóðsins sé að ræða og ljóst sé að atvinnurekendur ætli sér að takmarka áhrif verkfallsaðgerðanna eins og þeir geta.
„Eignir vinnudeilusjóðs SA eru um fimm milljarðar króna og sjóðurinn er meðal annars hugsaður til að bregðast við skæruverkföllum og ef gripið er til ómálefnalegra aðgerða gegn aðildarfyrirtækjum samtakanna,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA og framkvæmdastjóri vinnudeildusjóðs SA, í samtali við Morgunblaðið.
Í ályktun stjórnar SA frá í gær segir að engin rök hafi verið færð fyrir því af hverju Efling beini spjótum sínum aðeins að einum rekstraraðila í ferðaþjónustunni og vilji að 280 Eflingarfélagar leggi niður störf til að ná fram kjarasamningi fyrir 21.000 félagsmenn.