Paul Merson, fyrrum leikmaður liða á borð við Arsenal og núverandi sérfræðingur Sky Sports í tengslum við ensku úrvalsdeildina segir að Manchester United verði að næla í Harry Kane, framherja Tottenham og fyrirliða enska landsliðsins ætli félagið sér að verða Englandsmeistari á nýjan leik.
Samningur Kane við Tottenham rennur út eftir næsta tímabil en Manchester United hefur í fjöldamörg ár verið orðað við kappann. Þá vantar félaginu farmherja og standa vonir til þess að næstu kaup þess verði góður framherji á góðum aldri.
Kane jafnaði í gær markamet Jimmy Greaves hjá Tottenham. Það dylst engum að Kane er magnaður framherji en titlarnir hafa látið bíða eftir sér hjá Tottenham.
„Hann er besti framherji heims. Ef ég væri Manchester United þá myndi ég eyða 100 milljónum punda í hann á morgun. Félagið er nýbúið að eyða 80 milljónum punda í Antony og það myndi taka hann tíu ár að skora jafn mörg mörk og Kane myndi skora á einu tímabili hjá Manchester Untied.“
Kane geti spilað á hæsta gæðastigi þar til hann verður að minnsta kosti 37 ára þar sem hraði er ekki stór þáttur í hans leikstíl.
„Hann er með knattspyrnuheila, getur komið djúpt með lykilsendingar og skorað mörk. Hann býr yfir öllu.“
Ef Manchester United vilji vera nálægt því að vinna ensku úrvalsdeildina á nýjan leik verði félagið að næla í leikmann á borð við Kane.