Nýbökuð móðir furðar sig á því að móðir sín vilji fá borguð laun fyrir að passa barnabarnið sitt. Frá þessu greinir Kidspot en móðirin, sem kölluð er Nina, opnaði sig upphaflega um málið í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlinum Reddit.
Í færslunni kemur fram að dóttir Ninu er nokkurra mánaða gömul og að Nina hafi strax byrjað að leita að daggæslu fyrir hana. Hún er þó ekki viss hvort það sé raunhæfur möguleiki þar sem hún og faðir barnsins eru ekki vel stödd fjárhagslega. Nina, sem er 29 ára gömul, hafði því vonað að móðir sín gæti hjálpað þeim með því að passa barnabarnið sitt. Það kom Ninu svo rækilega á óvart þegar móðir hennar sagðist vilja fá borguð laun fyrir hvern klukkutíma sem hún passar barnið.
„Móðir mín er 64 ára gömul, hún hefur verið húsmóðir síðan árið 1992 og hefur ekki verið á vinnumarkaði síðan þá,“ útskýrir Nina. Þá segir hún móður sína hafa sagt við sig að ef hún „virkilega vildi þetta barn“ þá hefði hún kannski átt að hugsa um að vera heima með því, eins og móðir hennar gerði á sínum tíma. „Við búum í lítilli íbúð með eiu svefnherbergi og við þurfum að safna pening til að flytja í stærri íbúð þegar barnið vex úr grasi.“
Nina segist hafa útskýrt þetta fyrir móður sinni en að hún hafi þá sagt að hún vildi fá 20 ástralska dollara, rúmar 2.000 íslenskar krónur, á klukkutíma fyrir að passa barnabarnið sitt. Þá vildi hún einnig rukka gjald ef þau koma seint að sækja barnið. Þá vildi móðir Ninu einnig fá allan búnað til að geta hugsað um barnið, eins og bílsæti, kerru og bleyjur. Móðir hennar þvertók svo fyrir að koma til þeirra og passa barnið, hún myndi aðeins gera það heima hjá sér.
Þarna varð Ninu ljóst að það væri ódýrara fyrir hana að fara með barnið sitt í daggæslu en hún hafði vonast eftir því að móðir sín myndi gera þetta ókeypis. Netverjar voru alls ekki allir sammála um hvort Nina eða móðir hennar væru í rétti í þessu máli. Sumum þeirra fannst ótrúlegt að amma myndi rukka fyrir að hugsa um barnabarnið sitt en öðrum fannst fáránlegt að Nina væri að búast við því að fá fría pössun.