fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Þær þóttu kynþokkafyllstu konur heims og urðu milljónerar á undraverðu hári sínu – Sorgarsaga Sutherland systranna sjö

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Mánudaginn 23. janúar 2023 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á sínum tíma voru þær frægari en Kardashian systurnar Beyonce og Miley Cyrus til samans.

Þær voru hinar undraverðu Sutherland systur- Sarah, Victoria, Isabella, Grace, Naomi, Dora og Mary.

Þær gátu sungið og spilað á hljóðfæri en það sem var hinn raunverulegi lykill að frægðinni var hár þeirra sem samanlagt var hvorki meira né minna en rúmlega 11 metrar.

Systurnar fæddust á tímabilinu 1845 til 1862 á bóndabæ í uppsveitum New York þar sem fátækir foreldrar þeirra böðluðust við að reka kalkúnabú.

Sá peninga í hárinu

Móðir þeirra lést árið 1867. Faðir þeirra, Fletcher Sutherland, var auðnuleysingi sem hafði erft kalkúnabúið eftir föður sinn og rekið það í gjaldþrot, datt í hug að græða mætti á dætrunum sjö. Það varð hans ævistarf að vera sem ríkastur á stúlkunum og honum var nokk sama hvernig.

Fletcher hóf að auglýsa dætur sína sem tónlistarkonur en var snöggur að átta sig á að hið gríðarlanga hár þeirra vakti meiri athygli en tónlistin.

Samkvæmt samtímaheimildum voru Sutherland systurnar reyndar afbragðs tónlistarkonur jafnt í söng sem hljóðfæraspilun.

Á þessum árum voru allar konur með hárið tekið upp og argasta siðleysa að hafa það slegið. Fletcher skipaði dætrum sínum á að enda alla tónleika með að taka hárið niður, allar í takt.

Áhorfendur hreinlega biluðust af hrifningu.

Milljónasullið

Móðir þeirra sáluga hafði daglega sett heimatilbúna blöndu í hár dætra sinna sem hún fullyrti að væri lykilinn að hinu þykka og síða hári þeirra.

Lyktin af blöndunni mun hafa verið viðbjóður og vildi enginn koma nálægt systrunum. Enginn vildi til dæmis sitja nálægt þeim í skóla eða kirkju. Sagan segir að systurnar hafi í laumi þakkað guði fyrir að móðir þeirra lést því þær hættu að anga eins og hrossaskítur.

Fletcher Sutherland varð milljónnamæringur.

Faðir þeirra sá sér leik á borði að selja blöndu konu sinnar sálugu sem stórfenglegustu hárvöru alla tíma. En frú Sutherland hafði tekið uppskriftina með sér í gröfina og því sullaði Fletchers saman rommi, salti, kínin og natrínklóríð sem hann sór fyrir að vera lykillinn að lokkum systranna.

Meira en fimm milljónir flaskna af sullinu seldust,

Hver flaska kostaði einn og hálfan dollara sem var svimandi há upphæð á þessum árum og gróðinn ævintýralegur.

Systurnar voru dregnar þvers og kruss um landið til að kynna vöruna og alls staðar þyrptist að fólk til að berja hinar undraverðu systur augum.

Fjöldi fólks bauð þeim háar upphæðir fyrir lokka úr hári þeirra.

Sexý en góðar

Fletcher sá einnig til þess að gerður var samningur við hinn eina sanna Barnum & Baily sirkus sem auglýsti systurnar sem undraverðar en það var augljós kynferðislegur undirtónn í auglýsingunum.

Systurnar voru orðnar mesta kyntákn sinna tíma, vefjandi hárinu um sig á þokkafullan hátt. Þess var þó alltaf gætt að ímynd þeirra væri að þær væru góðar og kirkjuræknar stúlkur.

Það var kannski þess vegna sem þær þóttu þetta spennandi. Þær dönsuðu á mörkum siðferðisviðmiða þessa tíma.

Faðir systranna lést árið 1888 og nú gátu þær gert hvað sem þær vildu án hans afskipta.

Og þótt Fletcher hafi verið ógeðfelldur maður, var það upphafið að endalokunum.

Óðu í fé

Stúlkurnar fluttu í glæsihýsi sem Fletcher hafði nýlokið við að byggja á lóð gamla kalkúnabúsins eftir að hafa rifið niður bóndabæinn.

Engu hafði verið til sparað við bygginguna. Húsið var með 14 herbergjum, fylltum glæsihúsgögnum og gegnheilu parketi og var allt flutt inn frá Evrópu með tileyrandi kostnaði.

Þær voru með rennandi vatn og nútíma salerni sem aðeins var á færi þeirra allra efnuðust.

Hver systranna var með eigin þjónustustúlku.

Við tók stanslaust partýhald sem einkenndist af áfengis- og vímuefnaneyslu og kynlífi.

Óheftu kynlífi þeirra og gesta þeirra, oft fyrir allra augum.

Sagt var að þær hefðu einnig áhuga á hinu yfirnáttúrulega og héldu reglulega miðilsfundi þar sem þær ræddu við látið fólk auk þess að reyna fyrir sér sem nornir.

Þær fóru öðru hverju í kynningarferðir til að auglýsa blönduna góðu, sem reyndar átti að seljast vel fram á tuttugustu öld, en sóuðu fé mun hraðar en þær öfluðu þess.

Furðuleg hegðun

Sú yngsta, Mary, hafði lengi barist við geðræn vandamál og var að lokum sett á lokað hæli þar sem hún dvaldi til dauðadags árið 1939.

Naomi gifti sig og fluttit út en lést árið 1893 af völdum krabbameins og skyldi eftir sig þrjú börn. Naomi var sú eina systranna til að eignast börn.

Hegðun systranna varð sífellt furðulegri og geymdu þær til dæmis lík Naomi í húsinu vikum saman þar til þær drösluðu henni út og grófu hana á lóðinni í ómerktri gröf.

Allar sóttu systurnar í sér yngri menn.

Frederick Castlemaine, franskur aðalsmaður og stórtækur ópíumfíkill bað Doru, sem þótti laglegust þeirra systra, en sleit trúlofuninni og bað þessi í stað eldri systur hennar, Isabellu, sem var þrettán árum eldri en hann.

Glæsihýsi systranna

Hann tók eigið líf meðan að hann var með systrunum á kynningarferðalagi og náðu Dora og Isabella sér aldrei eftir það.

Þær geymdu lík hans í glerkistu í stofunni í húsi sínum svo mánuðum saman, sátu við kistuna og sungu og töluðu við líkið.

Á endanum var anganin slík að heilbrigðisyfirvöld stigu inn og kröfðust þess að líkið yrði fjarlægt.

Létu þær því byggja grantígrafhýsi upp á tíu þúsund dollara um fimm kílómetra frá húsinu og fór Isabella á hverju kvöld að grafhýsinu til að syngja fyrir sinn látna unnusta.

Dapurleg örlög

Victoria Sutherland, sem hafði lagt í vana sinn að skreyta neglur sína með demöntum meðan að peningarnir flæddu inn, var hent út af systrum sínum eftir að hún giftist nítján ára pilti. Hún var þá fimmtug.

Það þótti eftirlifandi systrum kannski fullmikill aldursmunur.

Sarah lést 1919 og Dora lést í bílslysi sama ár. Hún var þá stödd í Hollywood við að reyna að fá gerða kvikmynd um þær systur.

Um 1920 breyttist hártíska kvenna, stutt hár var málið og salan á sullinu hrundi.

Systurnar sem eftir lifðu neyddust til að selja húsið og voru orðnar eignalausar.

Sutherland stórhýsið brann reyndar til grunna árið 1938.

Þær dóu allar í sárri fátækt, lengst lifði Grace sem varð 92 ára. Hún hafði þá aldrei klippt hár sitt.

Sara (1845–1919)
Victoria (1849–1902)
Isabella (1852–1914)
Grace (1854–1946)
Naomi (1858–1893)
Dora (1860–1926)
Mary (1862–1939)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“