Frank Lampard var fyrr í dag rekinn úr starfi knattspyrnustjóra enska úrvalsdeildarfélagsins Everton. Lampard fékk sparkið eftir lélegt gengi Everton upp á síðkastið en hann entist ekki ár í starfi.
Það var Daily Mail sem færði okkur fyrst fréttir af því að Lampard hefði verið sagt upp störfum og nú greinir miðillinn frá því að Lampard hafi fengið sparkið frá eiganda félagsins, Farhad Moshiri, símleiðis.
Everton tapaði í gær fyrir samkeppnisaðilum sínum í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar, West Ham United, með tveimur mörkum gegn engu. Eftir leik er Lampard sagður hafa fundað með Moshiri sem og Bill Kenwright og Kevin Thelwell, hátt settum fulltrúum Everton.
Þeirra spjall snerist hins vegar ekki um möguleg starfslok Lampard heldur um kaupstefnu Everton á yfirstandandi félagsskiptaglugga. Að sögn Daily Mail hafði Lampard átt nokkra svoleiðis fundi með Moshiri undanfarið.
Þrátt fyrir að þessi fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður Englands hafi vitað það vel að staða sín hengi á bláþræði virtist ekkert á fundi hans með Moshiri og félögum benda til þess að honum yrði sagt strax upp störfum.
Eins og sakir standa núna þykir Sean Dyche, fyrrum knattspyrnustjóri Burnley, líklegastur til þess að taka við stjórnartaumunum hjá Everton en þá hefur Marcelo Bielsa einnig verið nefndur til sögunnar í þessum efnum.
Þessir þykja líklegastir til að taka við Everton – Snýr goðsögn aftur í Guttagarð?