Arsenal er með gott forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar nú þegar tímabilið er hálfnað.
Liðið vann sterkan 3-2 sigur á Manchester United í gær. Sigurmarkið kom á 90. mínútu.
Úrslitin þýða að Arsenal er með fimm stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar. Auk þess eiga Skytturnar leik til góða á lærisveina Pep Guardiola.
Nánar til tekið er Arsenal með 50 stig eftir að hafa spilað helming leikja sinna. Hefur það því aðeins tapað sjö stigum það sem af er leiktíð. Er það fjórða besta byrjun frá upphafi í ensku úrvalsdeildinni.
Jafnframt er lið Arsenal nú með fleiri sig en liðið sem varð Englandsmeistari án þess að tapa leik tímabilið 2003-2004. Það Arsenal lið var með 45 stig eftir nítján leiki.
Ljóst er að ekkert er í höfn enn en útlitið er gott fyrir stuðningsmenn Arsenal.