Rannsóknin var birt í vísindaritinu Scientific Reports að sögn The New York Times sem segir að vísindamenn velti fyrir sér af hverju það sé frekar sjaldgæft að hvalir fái krabbamein þrátt fyrir að vera mjög stórir.
„Þetta er eitt púsl í hinu stóra púsli,“ sagði Mariana Nery, líffræðingur við Campinas háskólann í Brasilíu og benti á að þeim mun stærri sem lífvera er, þeim mun fleiri frumur séu í henni. Það þýðir að það er meira um að frumur skipti sér en það felur í sér aukna hættu á krabbameini. Af þeim sökum er ekki óeðlilegt að ætla að þessi stærstu dýr jarðar séu í sérstaklega mikilli hættu á að fá krabbamein. En þannig er það ekki.
Ef það tekst að öðlast skilning á erfðafræði hvala þá er hugsanlega hægt að öðlast meiri þekkingu á þeim genum sem geta „dregið úr útbreiðslu krabbameins“.
Þetta sagði Michael McGowen, meðhöfundur rannsóknarinnar og líffræðingur við Smithsonian í Washington D.C.