Þeir gerast ekki mikið stærri gestirnir en sá sem fenginn var í Íþróttavikuna með Benna Bó í þetta skiptið. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sat þá í setti ásamt Herði Snævari Jónssyni, fréttastjóra íþrótta á Torgi.
Guðni er mikill íþróttaunnandi og fylgist vel með fótbolta, handbolta og fleiri greinum.
Hann hefur fylgst náið með strákunum okkar á HM í handbolta undanfarna daga.
„Fyrir einn leikinn núna flutti ég erindi á læknadögum um það bil 20 mínútur yfir fjögur. Svo þurfti ég að tilkynni að ég þyrfti því miður að hverfa á braut því það væri mikilvægur fundur klukkan fimm. Þau vissu nú flest hvernig klukkan sló þar.“
Það er þó ekki bara handboltinn sem Guðni heillast að.
„Þeir eru til í vinahópnum mínum sem halda því fram að ég hafi sóst eftir þessu embætti til þess að geta komist á viðburði. Ég man eftir að hafa rifið hár mitt og skegg þegar ég var að reyna að ná í miða þegar velgengni strákanna okkar í fótboltanum var sem mest.“
Umræðan í heild er hér að neðan.