Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag vekur Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, athygli á því hve algengt það er fólk sé skipað í embætti án þess að starfið sé auglýst. Í samantekt forsætisráðuneytisins frá því í fyrra kom fram að um 20% af embættisskipunum á árunum 2009-2022 hafi verið án auglýsingar.
„Nú er vissulega gefið svigrúm í lögum til þess að færa fólk til í starfi án auglýsingar – en umsagnir og álit um þær lagabreytingar gerðu ráð fyrir því að sambærilegt starf yrði þá laust á sama tíma og yrði þá auglýst: að eftir sem áður yrðu jafnmargar stöður alltaf auglýstar,“ segir í greininni.
Björn segir þessi rök hljóma skynsamlega en skoða þurfi hvernig umrædd heimild sé notuð. Hann tekur dæmi um tvo ríkisstarfsmenn, annars vegar embættismann sem skipaður var í stöðu án auglýsingar í síðustu viku og hins vegar þjóðminjavörð sem skipaður var í það starf um árið, án auglýsingar.
„Í þessum tveimur nýlegu tilvikum er um stöðuhækkun að ræða, svo strangt til tekið er ekki verið að flytja fólk til í starfi. Það er verið að veita fólki stöðuhækkun og auglýsingin sem kemur í kjölfarið er vegna annars konar starfs en þess sem hefði átt að auglýsa.“
Björn minnist þá þess þegar hann mætti í kosningaumræðuþátt á Stöð 2 þar sem hann var spurður út í þann orðróm að fólk annars staðar í stjórnmálunum hefði áhyggjur af því að fara í ríkisstjórn með Pírötum, því flokkurinn hefur „svo mikil prinsipp.“
„Að ef það kæmi upp eitthvað prinsippmál þá myndum við segja okkur úr ríkisstjórn eftir nokkra sólarhringa.
Þetta er mjög áhugaverð spurning, því stjórnmál hljóta að snúast um prinsipp. En við erum kannski orðin svo vön því að stjórnmálamenn selji sálu sína á altari valdsins að við einfaldlega búumst ekki við neinum prinsippum.“
Björn segir fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmi Gunnarsson, hafa orðað þetta eftirminnilega í kjölfar hrunsins:
„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Björn svaraði spurningunni þó á annan veg:
„Við erum bara að krefjast faglegra vinnubragða. Við sjáum pólitískar ráðningar sem við sættum okkur ekki við. Það eru nú ekki miklar kröfur að gera til stjórnmálanna, að vinna faglega. Okkur finnst það rosalega litlar kröfur. Sjálfsagðar kröfur.“
Björn segir að Píratar hlaupist ekki undan ábyrgð, flokkurinn krefjist ábyrgðar. Honum finnst endurteknar stöðuhækkanir án auglýsingar ekki vera fagleg vinnubrögð.
„Við eigum að geta gert betur og þurfum að gera kröfu um að stjórnmálamenn geri betur. Það ætti að hringja öllum viðvörunarbjöllum þegar stjórnmálaflokkar treysta sér ekki til samstarfs við flokk sem gerir einfaldar kröfur um fagleg vinnubrögð.
Það er góð vísbending um að það sé eitthvað mikið að í íslenskum stjórnmálum – „tækifærismennska, valdabarátta.““