Mæðgin létust síðastliðinn þriðjudag í kjölfar þess að ísbjörn réðst á þau í Wales, litlu afskekktu þorpi í Alaska í Bandaríkjunum. Summer Myomick, 24 ára móðir, og Saint Michael, árs gamall sonur hennar, hétu mæðginin sem um ræðir.
Vitni segja í samtali við AP að ísbjörninn hafi byrjað á að elta fólk í nágrenni við skóla í þorpinu, að starfsmenn skólans hafi reynt að koma fólki inn í skólann og halda ísbjörnum úti. Mæðginin voru stödd á milli skólans og sjúkrahússins í þorpinu þegar ísbjörninn réðst á þau. Á meðan ísbjörninn var að ráðast á mæðginin tók einn íbúi þorpsins sig til og skaut björninn til bana. Það dugði þó ekki til að bjarga Myimick og Michael sem létust bæði af sárum sínum. Samkvæmt ABC News munu yfirvöld í Alaska ferðast til þorpsins til að rannsaka árásina frekar.
Þrátt fyrir að árásir ísbjarna séu ennþá nokkuð sjaldgæfar í Alaska þá hefur þeim farið fjölgandi með hækkandi loftslagi. Þegar heimkynni ísbjarnanna bráðna eiga þeir það til að færa sig innar í landið. Samkvæmt rannsóknum hafa árásir ísbjarna á fólk stóraukist síðan um aldamótin. Flestar árásirnar fara fram milli mánaðanna júlí og desember, þar sem ísinn hylur ekki jafn mikið land og á hinum mánuðum ársins.