Rannsókn héraðssaksóknara á meints misferlis í starfsháttum SÁÁ hefur verið felld niður. Málið má rekja til þess að forstjóri Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) sendi héraðssaksóknara mál frá eftirlitsdeild SÍ sem varðaði gífurlegan fjölda reikninga sem ráðgjafar SÁÁ höfðu sent SÍ til greiðslu, en eftirlitsdeildin taldi reikningana tilhæfulausa.
SÁÁ hefur nú sent frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem niðurfellingunni er fagnað. Er þar rakið að Sjúkratryggingar Íslands hafi leitað til Persónuverndar, landlæknis og Héraðssaksóknara vegna meints misferlis SÁÁ. Öllum þeim málum sé nú lokið. Persónuvernd hafi vísað ábendingu SÍ frá, embætti landlæknis hafi lokið sínu máli með bréfi í september þar sem fallist var á skýringar SÁÁ og ákveðið að aðhafast ekkert frekar og nú hafi héraðssaksóknari fellt niður sína rannsókn.
„Hér var hátt reitt til höggs gegn SÁÁ, óhagnaðardrifnum almannaheillasamtökum sem veitti heilbrigðisþjónustu til handa viðkvæmum hópi, í miðjum heimsfaraldri. Bréfið sem Sjúkratryggingar Íslands sendu forsvarsmönnum SÁÁ og var birt í fjölmiðlum er uppfullt af ásökunum, rangfærslum og rógi og málsmeðferðin öll hefur vegið gróflega að starfsheiðri, trúverðugleika og trausti starfsmanna og starfsemi SÁÁ.
Við fögnum þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir eftir skoðun annarra opinberra aðila en þeirra sem framkvæmdu þá „rannsókn“ sem málið grundvallaðist á. Eftir stendur sú spurning hvað opinberri valdamikilli stofnun eins og Sjúkratryggingum Íslands gekk til, hvers vegna málsmefðerðin var ekki vandaðri en raun ber vitni, hvers vegna skýringar og gögn SÁÁ, sem hafa verið þau sömu frá upphafi, voru ekki teknar til greina og hvers vegna ágreiningur um framkvæmd nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu í heimsfaraldri þar sem framlag ríkisins er föst upphæð á ári var ekki leyst með hagsmuni þeirra sem þurftu þjónustuna í fyrirrúmi?“