Lionel Scaloni, landsliðsþjálfari Argentínu, er vongóður um að Lionel Messi spili á HM árið 2026.
Messi verður 39 ára gamall er næsta HM fer fram en hann fagnaði sigri með þjóð sinni í Katar á síðasta ári í fyrsta sinn.
Argentína lagði Frakkland í úrslitaleik mótsins og var Messi frábær í viðureigninni.
Talið er að Messi muni ekki vera hluti af landsliðinu eftir fjögur ár en Scaloni segir að dyrnar verði alltaf opnar ef hann vill taka þátt.
,,Ég tel að Messi geti spilað á næsta heimsmeistaramóti. Þetta snýst mikið um hvað hann vill og hvort honum líði vel,“ sagði Scaloni.
,,Dyrnar verða alltaf opnar fyrir hann. Hann er ánægður á vellinum í dag og það væri gott fyrir okkur ef hann tekur þátt.“