Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði að það væri „enginn vafi“ á að Rússland ætti eftir að sigra stríðið í Úkraínu. Samkvæmt News.com.au kom þetta fram í máli forsetans er hann ræddi við vinnumenn í verksmiðju í Sankti Pétursborg í dag.
Pútín útskýrði fyrir vinnumönnunum að „samstaðan í rússneska fólkinu“ og „hugrekki og hetjudáðir“ stríðsmanna Rússlands ættu eftir að tryggja sigur, ásamt vinnu hernaðargeirans í landinu. Þá hrósaði hann varnariðnaði Rússlands. Pútín virðist vera algjörlega sannfærður um að Rússland eigi eftir að bera sigur úr býtum í stríðinu en hann sagði að allt sem hann nefndi „gæti ekki annað“ en veitt Rússum innblástur til sigursins.
Ástæðan fyrir því að forsetinn var staddur í Sankti Pétursborg er sú að í dag eru 80 ár liðin frá því að hermenn Sovétríkjanna náðu að opna landleiðina að íbúum borgarinnar en umsátur Þjóðverja um hana hafði þá varað síðan í september árið 1941. Borgin var á þeim tíma kölluð Leníngrad en umsátrinu um Leníngrad lauk þó ekki alveg fyrr en þann 27. janúar árið 1944, eða rúmu ári síðar.